Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Breyttir tímar, ný tækifæri
Fimmtudagur 27. nóvember 2008 kl. 10:35

Breyttir tímar, ný tækifæri

Í ljósi gjörbreyttra aðstæðna á vinnumarkaði mun margt breytast á næstunni og einstaklingar þurfa að skoða hvaða möguleikar eru í stöðunni. Í umræðunni um ástandið hefur verið bent á mikilvægi þess að auka námsframboð og eru menntastofnanir margar hverjar að skoða möguleika sína í þeim efnum. Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum er ein þeirra.

„Það er alveg ljóst að miklar breytingar verða á högum margra einstaklinga á næstunni, nú þegar hafa áhrifin komið í ljós og er mikill fjöldi einstaklinga búinn að missa vinnuna. Þetta er mikið áfall og oft erfitt að sjá hvað hægt sé að gera þegar búið er að kippa stoðunum undan. En mikilvægt er að gleyma ekki að oft geta nýir möguleikar opnast og um að gera að láta þá ekki fara framhjá sér,“ segir Guðjónína Sæmundsdóttir, forstöðurmaður MSS.

Gjaldfrjáls þjónusta

MSS býður upp á ráðgjöf hjá náms- og starfsráðgjafa þar sem einstaklingar geta leitað sér upplýsinga um nám og störf. Þessi þjónusta stendur öllum til boða og kostar ekki neitt. Guðjónína segir að þegar Varnarliðið fór fyrir tveimur árum hafi margir notað tækifærið til að meta stöðu sína og möguleika. Margir skiptu alveg um starfssvið og fundu annan farveg fyrir hæfileika sína og áhuga eftir að hafa farið í áhugasviðsgreiningu há MSS.

Aukið framboð á stuttu námi

Að sögn Guðjónínu ætlar MSS að auka framboð á stuttu námi sem er kennt á einum til þremur mánuðum. „Þetta er bæði almennt nám þar sem kennd eru bókleg fög og einnig erum við með starfstengt nám. Námið er kennt að mestu leyti á daginn og ætti því að henta einstaklingum sem hafa misst vinnuna og vilja nýta tímann þangað til önnur vinna býðst. Þar sem námið tekur 1-3 mánuði eru einstaklingar ekki að binda sig til lengri tíma sem getur verið gott því flestir vilja komast sem fyrst aftur í vinnu. Ef hins vegar aðstæður námsmannsins leyfa þá verður hægt að halda áfram námi ef áhugi er á því, “ segir Guðjónína.

Sem dæmi um nám sem er að fara af stað er Grunnmenntaskólinn fyrir konur, Nám og þjálfun í almennum greinum fyrir karla, nám fyrir lesblinda, öryggisvarðanám, skrifstofuskólinn, nám fyrir fólk sem vill starfa í ferðaþjónustu, leikskólum, grunnskólum og félags- og heilbrigðisþjónustu. Guðjónína segir MSS í góðu samstarfi við Fræðslumiðstöð Atvinnulífsins, Vinnumálastofnun,VSFK og VS og er því kostnaðurinn við námið lítill. Áhugsamir geta fengið nánari upplýsingar hjá MSS síma 421 7500.

Sjá nánar auglýsingu MSS hér

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024