Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Þriðjudagur 7. nóvember 2000 kl. 15:46

Breyttar áherslur í rekstri Dropans: Harpar opnar málningarverslun

Um næstu áramót verður sú breyting á rekstri Dropans að Harpa hf., sem keypti fyrirtækið sl. vor, mun opna málningarverslun í Keflavík, en hættir þeim almenna rekstri sem Dropinn hefur staðið fyrir, t.d. sölu á gólfefnum, baðherbergisvörum og gjafavörum. Helgi Magnússon, framkvæmdastjóri Hörpu hf., sagði í samtali við VF að rekstur Dropans hafi ekki gengið upp og því hafi þessi ákvörðun verið tekin. „Við höfum góða reynslu af rekstri Hörpubúða á höfuðborgarsvæðinu og við héldum að við réðum við víðtækari rekstur, eins og Dropinn hefur staðið fyrir. Við erum ekki fullkomnir, frekar en aðrir, og höfum áttað okkur á því að við eigum ekki að vera í verslunarrekstri af þessu tagi. Harpa hf. hefur 65 ára reynslu og hefð í málningargreininni og þar teljum við okkur kunna til verka og þar ætlum við að vera“, segir Helgi. „Við gáfum þessari hugmynd sinn tíma og erum ekki sáttir við útkomuna og ætlum okkur ekki að ganga lengra. Það kann að vera að aðrir rekstraraðilar kunni betur á þennan markað og þá er um að gera að þeir fái tækifæri.“ Vegna ofangreindra breytinga á rekstri Dropans var þremur starfsmönnum í fullu starfi sagt upp störfum um síðustu mánaðarmót og tveimur sem voru þar í hálfu starfi. Öðrum var boðið áframhaldandi samstarf. Rekstur Dropans verður með hefðbundnum hætti til áramóta og er jólamarkaðurinn nú í fullum gangi. Þar geta Suðurnesjamenn gengið að áhugaverðum tilboðum á gólfefnum og Hörpu málningu. Að sögn Helga mun Harpa hf. freista þess að selja þann hluta verslunar Dropans sem ekki tengist málningargreininni sérstaklega. „Það er engin launung að því að við höfum boðið Guðmundi Má Kristinssyni þann hluta fyrirtækisins til kaups. Næstu daga ætlar hann að skoða málið. Verði ekki af kaupum hans, munum við ræða við aðra aðila um kaup á þessum hluta rekstrarins, en tveir aðilar hafa sýnt áhuga. Það má því búast við að Dropinn verði áfram í rekstri í Keflavík, þó svo að fyrirtækið muni skiptast í Hörpu málningarverslun og aðra verslunarstarfsemi“, segir Helgi.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024