Breyttar áherslur í flugeldasölunni
Árleg flugeldasala hófst í gær og eru söluaðilar þokkalega bjartsýnir þrátt fyrir kreppu og hækkandi verð. Þeir flugeldasalar sem VF ræddi við eru sammála um að fólk hafi breytt kaupvenjum sínum í þessum efnum í kreppunni. Það komi fram í minni sölu á dýrari skoteldum, eins og t.d. stóru tertunum. Fjölskyldupakkar og minni flugeldar séu vinsælli núna.
Það hefur ekki dulist neinum að inn á flugeldamarkaðinn eru komnir einkaaðilar í samkeppni við björgunarsveitirnar sem hafa reitt sig á flugeldasöluna sem sína mikilvægustu fjáröflunarleið.
„Hvað gerir flugeldasalinn þinn fyrir þig? er spurning sem við hvetjum fólk til að íhuga áður en það tekur ákvörðun um það hvar kaupa skuli flugeldana. Það eru jú björgunarsveitirnar sem koma til aðstoðar í neyð þegar eitthvað fer úrskeiðis. Peningarnir sem við fáum af flugeldasölunni eru því í þágu almennings,“ segir Kári Viðar Rúnarsson, formaður Björgunarsveitarinnar Suðurnes.
„Verðlag hefur eitthvað breyst. Bæði hefur fall krónunnar og hækkandi innkaupsverð haft áhrif, það er alveg ljóst. Almennt held ég að fólk kaupi frekar ódýrari flugelda fremur en að neita sér um það því fólk vill sem betur fer ennþá styðja mikilvægt starf björgunarsveitarinnar þrátt fyrir þessar aðstæður. Við tökum mið af þessum breytingum og leggjum núna meiri áherslu á pakkana og gríðarlegt úrval af rakettum í öllum verðflokkum. Þá höfum við aukið úrvalið í vörum í milliflokki, t.d. svokölluðum Köppum sem eru mun ódýrari en stóru terturnar. Við reiknum með meiri sölu á þessum hlutum en minni í stærra dótinu. Það úrval sem björgunarsveitirnar eru þekktar fyrir minnkar því ekkert, áherslurnar eru bara aðrar,“ segir Kári.
Flugeldasalan verður opin til kl. 10 á kvöldin og til klukkan fjögur á gamlársdag. Björgunarsveitin verður með tvo sölustaði að þessu sinni, í höfuðstöðvum sínum að Holtsgötu 51 í Njarðvík og að Brekkustíg 38.
Annasamt ár er senn að baki hjá Björgunarsveitinni Suðurnes sem hefur farið í 56 útköll á þessu ári, samanborið við 38 útköll á síðasta ári, þannig að aukningin er talsverð. Þá eru ótaldar allar æfingar, námskeiðahald og vinnustundir í innra starfi sveitarinnar.
Þá aðstoðaði sveitin við bólusetningu á vegum HSS gegn svínaflensunni. Alls hafa farið 240 vinnustundir í það á þessu ári en verkefnið heldur áfram eftir áramót. Sveitin var einnig þátttakandi í hálendisverkefni SL í sumar og sinnti um 270 hjálparbeiðnum á tímabilinu 30. júlí – 9. ágúst. Þá hélt björgunarsveitin, ásamt öðrum sveitum á Suðurnesjum, umfangsmikla landsæfingu síðla sumars en allt að 500 manns tóku þátt í henni. Þá voru 75 manns frá sveitinni í öryggisteymi Ljósanætur, svo eitthvað sé nefnt af þeim verkefnum sem sveitin sinnti á árinu sem er að líða.
--
VFmynd/elg- Fólkið í flugeldasölu Björgunarsveitarinnar Suðurnes við opnun í gær.