Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Breytingar í Reykjanesbæ
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
föstudaginn 28. janúar 2022 kl. 11:43

Breytingar í Reykjanesbæ

Sömu leiðtogar hjá Sjálfstæðisflokki og Samfylkingu. Nýtt fólk að koma inn í mörgum framboðum. Prófkjör og uppstillingar.

Allt bendir til að sömu oddvitar leiði framboð tveggja stærstu stjórnmálaflokkanna í Reykjanesbæ, Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, í sveitarstjórnarkosningunum í maí næstkomandi. Margrét Sanders hefur tilkynnt áhuga hennar á að leiða Sjálfstæðisflokkinn áfram og þá hefur Friðjón Einarsson einnig hug á að leiða Samfylkingu. Breytingar verða í öðrum framboðum og í sumum liggur ákvörðun ekki fyrir ennþá.

Í síðustu kosningum fékk Sjálfstæðisflokkurinn 22,9% og Samfylking 20,5% og hvor flokkur um sig þrjá fulltrúa. Samfylking fékk Framsókn (14%, tvo bæjarfulltrúa) og Beina leið (13,5%, einn bæjarfulltrúa) með sér í meirihluta sem hefur stýrt málefnum Reykjanesbæjar síðustu fjögur árin. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Von er á breytingum í framboði Beinnar leiðar sem Guðbrandur Einarsson leiddi en hann er kominn á Alþingi eins og Jóhann F. Friðriksson sem hefur verið oddviti Framsóknar. Þeir tveir hverfa á brott úr bæjarpólitíkinni. Tvö framboð sem buðu fram í síðustu kosningum, Píratar (6%) og Vinstri grænir og óháðir (1,9%) fengu ekki mann í bæjarstjórn síðast. 

Sjálfstæðismenn verða með prófkjör í lok febrúar og samkvæmt heimildum Víkurfrétta eru litlar líkur á því að Margrét Sanders fái mótframboð í 1. sætið. Baldur Þórir Guðmundsson sem var í 2. sæti ætlar að hætta en Anna Sigríður Jóhannesdóttir sem var í 3. sæti gefur kost á sér í 2.–3.sætið í prófkjörinu og vitað er að fleiri hafa hug á því. Nafn Guðbergs Reynissonar hefur komið þar upp en hann reyndi fyrir sér í prófkjöri flokksins fyrir alþingiskosningarnar í fyrra. Meðal fleiri sem VF hefur heyrt um eða fólk gefið út um þátttöku eru: Eiður Ævarsson, Gígja S. Guðjónsdóttir og Guðni Guðmundsson. Ríkharður Ibsen sem var í 3. sæti segist vera að hugsa málið.

Samfylking auglýsir nú eftir þátttakendum sem hafa áhuga á að vera á lista. Uppstillingarnefnd mun síðan leggja fram tillögu að lista fyrir félagsfund. Samkvæmt upplýsingum VF eru allar líkur á því að Friðjón Einarsson og Guðný Birna Gunnarsdóttir verði í efstu tveimur en Styrmir Gauti Fjeldsteð sem var í 3. sæti ætlar ekki að vera áfram.

Hjá Framsókn verður uppstilling. Díana Hilmarsdóttir sem var í 2. sæti og Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir sem var í 3. sæti síðast munu báðar bjóða krafta sína. 

Miðflokkurinn fékk 13% í síðustu kosningum og einn fulltrúa og aðspurð segist Margrét Þórarinsdóttir ekki vera búin að ákveða hvað hún geri en ekki er talið líklegt að hún fari fram fyrir Miðflokkinn m.a. í ljósi þess að Birgir bróðir hennar gekk til liðs við Sjálfstæðisflokkinn nokkrum dögum eftir síðustu alþingiskosningar. Margrét gaf ekkert upp með hvaða flokki hún færi ef hún myndi bjóða sig aftur fram. 

Frjálst afl mun hætta og leiðtogi þess, Gunnar Þórarinsson líka. Framboðið fékk 8,3% í síðustu kosningum og einn mann í bæjarstjórn. 

Ekkert hefur verið ákveðið hjá VG en þó nokkrir eru áhugasamir um að vera á lista að sögn Hólmfríðar Árnadóttur, formanns VG. „Við stjórnin fundum á fimmtudag og tökum þá ákvörðun um forval eða uppstillingu.“ 

Píratar verða með prófkjör sem haldið verður á næstunni. Þeir hafa aldrei átt bæjarfulltrúa.

Frá bæjarstjórnarfundi í Reykjanesbæ með covid áhrifum eins og sjá má á fjarlægð milli bæjarfulltrúa. VF-mynd/pket.