BREYTINGAR Í LÖGGÆSLU-BAKVAKTIR FÆRÐAR TIL KEFLAVÍKUR
Bakvaktir hjá lögreglunni í Grindavík verða felldar niður frá og með 1. febrúar nk. Bæjarráð Grindavíkur lýsti yfir áhyggjum sínum á síðasta fundi vegna þessarar breytingar og hefur óskað eftir fundi með dómsmálaráðherra um málið. Þessi breyting hefur í för með sér að skipuleggja verður að nýju fyrirkomulag útkalla á slökkviliði, sjúkrabíl og björgunarsveit. Jón Eysteinsson, sýslumaður sagði í samtali við blaðið að þó þessi breyting væri gerð þýddi hún ekki verri þjónustu fyrir Grindvíkinga því bakvaktirnar færðust á lögreglustöðina í Keflavík. Þar væri vakt allan sólarhringinn en bakvaktir í Grindavík voru með þeim hætti að heimamenn sinntu henni en þá þurfti að ræsa ef eitthvað kæmi upp. Í framhaldi af þessu væri sömuleiðis bætt við eftirlitsferðum hjá lögreglunni í Keflavík í Grindavík en slíkar ferðir eru farnar um öll byggðarlög á Suðurnesjum, 1-3 ferðir á nóttu. Jón sagði að þetta væri gert í samráði við dómsmálayfirvöld og hefði sparnað í för með sér sem nauðsynlegt væri að ná fram. Þá væri tækni orðin þannig að engin vandi væri að sinna þessu svona. Þá yrði útköllum í sjúkrabíl og slökkvilið beint í gegnum neyðarnúmerið 112 sem væri Grindvíkingum að kostnaðarlausu en öll slík útköll fara þar í gegn hjá sveitarfélögum sem væru ekki með sólarhringsvakt.