Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Breytingar hjá yfirstjórn Flugleiða
Mánudagur 17. janúar 2005 kl. 13:09

Breytingar hjá yfirstjórn Flugleiða

Á fundi stjórnar Flugleiða í morgun tilkynnti Sigurður Helgason að hann hefði ákveðið að  láta af störfum 31. maí n.k. eftir 20 ára setu á forstjórastóli félagsins.
 
Sigurður  kom til starfa hjá Flugleiðum 1. júlí 1974 í fjárreiðudeild félagsins. Hann var síðan framkvæmdastjóri fjármálasviðs og framkvæmdastjóri starfsemi Flugleiða í Bandaríkjunum. Sigurður varð forstjóri Flugleiða 1. júní 1985 og hefur stýrt starfi félagsins síðan. Gengið hefur verið frá samkomulagi um að Sigurður verði í stjórn Flugleiða til aðstoðar og ráðgjafar næstu ár eftir að forstjórastörfum hans lýkur.

Á fundinum var jafnframt samþykkt að Hannes Smárason, formaður stjórnar Flugleiða, myndi verða starfandi stjórnarformaður félagsins frá deginum í dag til að einbeita sér að útrás og viðskiptaþróun félagsins.

Þegar Sigurður greindi stjórn  Flugleiða frá ákvörðun sinni sagðist hann telja  þetta réttan tíma til breytinga.  „Ég hef verið afar lánssamur í starfi og Flugleiðir eru án efa eitt áhugaverðasta fyrirtæki landsins og ég hef átt því láni að fagna að hafa með mér í verki mjög traustan hóp stjórnenda og frábært starfsfólk. Saman hefur okkur hefur tekist að byggja upp afar öflugan og farsælan rekstur á fjölmörgum sviðum flugrekstrar og ferðaþjónustu. Við höfum byggt hér upp einstakt samgöngunet og í raun lagt grunn að nýrri atvinnugrein, íslensku ferðaþjónustunni.  Í samanburði við önnur alþjóðleg fyrirtæki í þessari grein hefur afkoman af Flugleiðum verið traust á undanförnum árum. Félagið er því vel fyrir framtíðina búið og getur tekist á við ný tækifæri og fært enn út kvíarnar. Ég  tel því að þetta sé góður tími til að fela næstu kynslóð að taka næstu skref,“ sagði Sigurður.

„Sigurður Helgason hefur verið afar farsæll í störfum sínum fyrir Flugleiðir. Hann hefur leitt uppbyggingu og endurnýjun félagsins og lagt grunn að þeirri sterku stöðu sem Flugleiðir hafa í dag til frekari útrásar á nýja markaði. Flugleiðir eiga eftir að njóta ávaxtanna af starfi Sigurðar um langa framtíð og stjórn félagsins þakkar honum heilladrjúg störf í rúmlega þrjá áratugi. Það verður hlutverk  mitt og stjórnarinnar að marka stefnu um áframhaldandi sókn félagsins og í því starfi munum við njóta sérþekkingar og ráðgjafar Sigurðar næstu ár samkvæmt sérstöku samkomulagi sem gert hefur verið,“ sagði Hannes Smárason.

Tekið af vef Kauphallar Íslands

VF-mynd/ Sigurður Helgason ásamt þeim Hannesi Smárasyni, Steini Loga Björnssyni og Maríu Rún Hafliðadóttur við opnun nýju setustofu Icelandair í Leifsstöð á dögunum. Sigurður er lengst til hægri á myndinni.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024