Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Breytingar framundan á Keflavíkurflugvelli
Föstudagur 28. september 2007 kl. 11:45

Breytingar framundan á Keflavíkurflugvelli

Miklar grundvallarbreytingar eru fyrirhugaðar á rekstarformi Keflavíkurflugvallar og nágrennis á næstu mánuðum. Þegar Alþingi kemur saman á ný er fastlega búist við að lagt verði fram frumvarp um sameiningu allra aðila á vallarsvæðinu, þ.e.a.s. Flugmálastjórnar á Keflavíkurflugvelli, Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar (Kadeco).


Miklar vonir eru bundnar við framtíðarþróun á svæðinu þar sem alþjóðaflugvellir eru um allan heim miðpunktur atvinnulífs og þekkingariðnaðar. Möguleikarnir eru nær óþrjótandi en beðið er eftir lokaákvörðun um framtíðarfyrirkomulag á flugvallarsvæðinu.

Í skýrslu Price Waterhouse Coopers, sem gerð var um málið árið 2005, segir að grundvallaratriðið í þróun svæðisins sé að yfirstjórn þess sé öll á einni hendi. Fyrir utan þá þrjá aðila sem þegar eru nefndir til sögu eru sveitarfélögin Reykjanesbær, Garður og Sandgerði, sem eiga hagsmuna að gæta á svæðinu, á meðal þeirra sem þurfa að koma að breytingum á skipulagi undir núverandi aðstæðum. Einnig þarf oft að fara í gegnum mörg ráðuneyti.


Byggingar- og skipulagsnefnd varnarsvæða sem hefur umsjón með svæðinu nú og er undir stjórn utanríkisráðuneytis, en hluti af yfirvofandi breytingum er færsla á málum tengdum flugvellinum frá utanríkisráðuneyti til samgönguráðuneytis.

Halldór Árnason, skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu, sagði í samtali við Víkurfréttir að frumvarp um málið hafi verið smíðað á síðasta ári. Hann taldi líklegt að hreyfing færi að komast á málið. 
„Það er líklegt að frumvarpið, þar sem  verið er að fjalla um flutning stofnana yfir til samgönguráðuneytisins og málefni yfirstjórnar á Keflavíkurflugvelli, verði lagt fram fljótlega eftir að þinghald hefst að nýju.“ Aðspurður að því hvort ekki hafi verið hægt að afgreiða þetta mál fyrr, þar sem nokkuð sé liðið frá brotthvarfi Bandaríkjahers, sagði Halldór að málið hafi verið í vinnslu allan tímann.

Þórður Hilmarson, forstöðumaður Fjárfestingastofu Íslands, Invest in Iceland, sem hefur leitt undirbúningsvinnuna að breytingunum, gat lítt tjáð sig efnislega um málið sökum trúnaðar, en staðfesti í samtali við Víkurfréttir að stefnt væri að því að málið yrði tekið fyrir á Alþingi í haust og afgreitt fyrir áramót.

Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, sagði í samtali við Víkurfréttir að vinna standi nú yfir og nú þessa dagana sé rætt um sjóðsstreymi væntanlegs fyrirtækis. „Það er betra að hafa sameiginlegt skipulag á þessu svæði þar sem allir hagsmunaaðlar kæmu að. Það mun gera alla skipulagsvinnu auðveldari þar sem allir væri að vinna að sama marki. Þetta mun kannski ekki breyta miklu í okkar þróunarvinnu því við í Reykjanesbæ erum að vinna markvisst eftir niðurstöðum skýrslunnar [frá PWC] þrátt fyrir að stjórnkerfið sem hún mælir með sé ekki enn komið á. Við vonum bara að það fari eitthvað að gerast í þessum efnum fljótlega. Það verður einhver að taka af skarið.“

----------------------------------------------------


Hver hreppir hnossið?
Þegar Flugstöð Leifs Eiríkssonar, Flugmálastjórnin Keflavíkurflugvelli og Kadeco, sameinast er ljóst að nokkrar hrókeringar verða á efstu stöðum innan þeirra.
Eins og staðan er í dag þykir Björn Ingi Knútsson, flugvallarstjóri, líklegri en aðrir sitjandi forsvarsmenn, þ.e. Elín Árnadóttir, nýráðinn forstjóri FLE, og Kjartan Eiríksson, framkvæmdastjóri Kadeco, til að hreppa hnossið, ef einungis er gengið út frá reynslu í starfi og umfangi núverandi verkefna.
Dæmin hafa hins vegar sýnt undanfarin ár að ekki er útilokað að pólitík muni spila inn í ákvörðunina. Svo er ekkert sem útilokar að leitað sé til aðila utan félaganna þriggja en enn sem komið er hafa engin nöfn heyrst í þvi samhengi.
Þannig verður spennandi að sjá hvernig fer í vetur og hvort átök verði á bak við tjöldin um forstjórastólinn góða.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024