Breytingar á póstþjónustu í Grindavík
Á síðustu árum hefur póstþjónusta á Íslandi tekið stórfelldum breytingum. Frá árinu 2010 hefur fjöldi bréfasendinga dregist saman um 74% en á sama tíma hafa pakkasendingar margfaldast. Pósturinn leggur kapp á að aðlagast hratt og örugglega og kappkostar að þróa þjónustu sína í takt við breyttar þarfir og kröfur neytenda. Þetta kemur fram í tilkynningu.
Um miðjan janúar 2023 hyggst Pósturinn gera breytingar á póstþjónustu í Grindavík. Til stendur að loka pósthúsinu en leggja þess í stað meiri þunga á aðrar þjónustulausnir á svæðinu. Pósturinn vill upplýsa viðskiptavini sína um þessar fyrirhuguðu breytingar tímanlega. Dreifibréf með öllum nánari upplýsingum um breytingarnar verður dreift til íbúa þegar nær dregur.
Kjartan Flosason, forstöðumaður pósthúsa hjá Póstinum, segir lokanir alltaf erfiðar: „Ég er svo gott sem fæddur og uppalinn á pósthúsi; ólst upp á pósthúsinu á Bíldudal og svo fluttumst við fjölskyldan á efri hæð pósthússins í Búðardal. Ég hóf svo formlega störf hjá Póstinum fyrir tvítugt og hef unnið þar nær alla tíð síðan. Þess vegna skil ég vel að svona lokanir geti verið sárar enda snerta þær svo marga bæði beint og óbeint, hvort sem það er starfsfólkið sjálft eða íbúar svæðisins,“ segir Kjartan og bætir við: „Á sama tíma gera breyttir tímar kröfu um breytta þjónustu sem við verðum víst að laga okkur að. Verulega hefur dregið úr eftirspurn eftir afgreiðsluþjónustu pósthúsa á sama tíma og notkun annarra þjónustulausna fer sívaxandi. Póstboxin okkar hafa til dæmis alveg slegið í gegn, enda er þar bæði hægt að sækja og senda, hvenær sem viðskiptavinum hentar. Nú eru okkar ánægðustu viðskiptavinir einmitt þeir sem nýta sér póstbox. Við erum einnig byrjuð á svokallaðari laugardagsáfyllingu og fyllum þá á póstboxin á svæðinu sex daga vikunnar.“
Samspil póstboxa, póstbíla, bréfbera og landpósta mun sjá neytendum á svæðinu fyrir póstþjónustu í takt við breyttar áherslur.
„Pósturinn er ekki að fara neitt og við ætlum okkur að sjálfsögðu að halda áfram að veita góða þjónustu. Póstkassarnir verða á sínum stað og endursöluaðilar munu sjá til þess að hægt verði að nálgast frímerki. Auk póstboxsins, þar sem hægt er að sækja og senda pakka, munu bréfberar svo halda áfram að sjá um dreifingu bréfa tvisvar í viku. Svo verða bílstjórarnir okkar á vaktinni til að sinna heimkeyrslu auk þess að afhenda og sækja pakka sem ekki komast í póstbox en þá keyrum við heim til viðskiptavina án endurgjalds. Póstbílarnir verða eins konar pósthús á hjólum. Viðskiptavinir munu einfaldlega geta slegið á þráðinn og bílstjórinn sér um rest,“ segir Kjartan að lokum.
Með einföldum hætti geta viðskiptavinir skráð sig á Mínar síður á vef Póstsins eða sótt appið. Þar er hægt að stjórna sendingarmöguleikum og skrá kreditkort til að senda pakka í póstbox ásamt því að nýta ýmsar aðrar lausnir sem stytta bið, lækka gjöld og bæta þjónustu við viðskiptavini enn frekar.
Íbúum á svæðinu verða send dreifibréf með frekari upplýsingum um breytingarnar þegar nær dregur. Á posturinn.is má finna ítarefni og upplýsingar um fjölbreyttar þjónustulausnir Póstsins. Auk þess er alltaf velkomið að hafa samband við þjónustuver í síma 580 1000 eða á netspjallinu við köttinn Njál á posturinn.is.