Breytingar á gjaldskrá í samræmi við hækkun vísitölu
Útsvarshlutfall hækkar um 1,20% í Reykjanesbæ á næsta ári vegna tilfærslu þjónustu við fatlaða frá ríki til sveitarfélaga. Álagningarhlutfallið í Reykjanesbæ hækkar því úr 13,28% í 14,48%. Á móti mun ríkið lækka tekjuskatt þannig að tilfærslan feli ekki í sér beina skattahækkun. Verulega verður hagrætt í rekstri bæjarins á næsta ári.
Gjaldskrá Reykjanesbæjar var til umræðu í bæjarráði í gær. Hvatti Kristinn Jakobsson, fulltrúi Framsóknar, meirihlutann til að stilla hækkunum á gjaldskrá í hóf og „gæta þess að hækkanir lendi ekki á þeim sem minnst mega sín“. Taldi Kristinn að fremur ætti að hagræða í rekstri.
Í bókun sem Böðvar Jónsson lagði fram fyrir hönd meirihlutans segir að almennt verði breytingar á gjaldskrá Reykjanesbæjar í samræmi við hækkun á vísitölu.
„Frá árinu 2008 hafa gjaldskrár lækkað að raungildi þar sem hækkanir hafa ekki fylgt þróun vísitölu á sama tímabili. Hækkun á fasteignasköttum nú mun vega upp á móti lækkun fasteignamats þannig að tekjur RNB verði þær sömu að krónutölu milli áranna 2010 og 2011. Verulega verður hagrætt í rekstri milli áranna 2010 og 2011 einkum með niðurskurði á kostnaði við stjórnsýsluna,“ segir í bókuninni.