Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Breyta verður áherslum í rekstri bæjarins ef ekki á að fara verr
Bæjarfulltrúar Samfylkingar í Reykjanesbæ, Guðný, Eysteinn og Friðjón.
Þriðjudagur 17. desember 2013 kl. 21:19

Breyta verður áherslum í rekstri bæjarins ef ekki á að fara verr

segir í bókun minnihluta Samfylkingar í Bæjarstjórn Reykjanesbæjar eftir afgreiðslu fjárhagsáætlunar 2014.

Bókun bæjarfulltrúa Samfylkingarinnar vegna fjárhagsáætlunar Reykjanesbæjar 2014 á bæjarstjórnarfundi 17. desember 2013:


Rekstur bæjarsjóðs Reykjanesbæjar árið 2013 einkennist enn og aftur af rekstrarerfiðleikum og þröngri stöðu í fjármálum sveitarfélagsins. Enn eitt árið var lítið svigrúm til framkvæmda og viðhald í lágmarki. Að venju var eignasala mest áberandi en á árinu 2013 stefnir í að eignir verði seldar fyrir rúmlega tvo milljarða. Það er nöturleg staðreynd að án eignasölu hefi veltufjárhlutfall Reykjanesbæjar á árinu 2013 farið undir 1,0, handbært fé orðið neikvætt og þurft hefði að reka bæinn með lántöku. 
Fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar 2014 ber merki áralangrar óstjórnar og staðan er grafalvarleg. Þrátt fyrir tugmilljarða eignasölu á undanförnum áratug er ljóst að allar helstu kennitölur í rekstrinum versna á árinu. Að öllu óbreyttu mun veltufjárhlutfall bæjarsjóðs lækka úr 1,49 í 1,03. Sama gildir um eiginfjárhlutfallið en það lækkar um tæplega 10%. Skuldir á hvern íbúa hækka og eignir standa nánast í stað.

Rekstur B-hluta fyrirtækja er á svipuðu róli og hallarekstur verður viðvarandi áfram. Staða Reykjaneshafnar er sérstaklega erfið og ljóst að þar mun Reykjanesbær þurfa að halda áfram að leggja til fé á næstu árum. Fjárhagsáætlun Reykjaneshafnar byggist einn eitt árið á draumsýn þar sem tekjur eru ofáætlaðar um allt að 300 milljónir. Fasteignir Reykjanesbæjar eru í slæmri stöðu og áfram þarf að fjármagna hallarekstur fyrri ára.

Alvarlegast er að enga stefnubreytingu er að merkja í fjárhagsáætlun Reykjansbæjar fyrir árið 2014. Fastur rekstrarkostnaður fer hækkandi, handbært fé minnkar, skuldir hækka og ef ekki kæmi til tímabundin frestun á vaxtagreiðslum vegna Eignarhaldsfélagsins Fasteignar myndi rekstur bæjarsjóðs og samstæðu vera neikvæður um hundruð milljóna króna.

Ljóst er að ekki verður við svo búið til langframa og breyta verður áherslum í rekstri bæjarins ef ekki á að fara verr.

Undanfarin ár hafa bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar lagt fram ítarlegar tillögur að breytingum á einstökum liðum fjárhagsáætlunar en í ljósi stöðu bæjarsjóðs leggjum við nú til að skipaður verði vinnuhópur sem endurskoði ásamt sérfræðingum allan rekstur bæjarsjóðs og samstæðu og skili inn tillögum til úrbóta til bæjarstjórnar á vormánuðum 2014.  

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Friðjón Einarsson.
Guðný Kristjánsdóttir.
Eysteinn Eyjólfsson
.