Breyta húsnæði Þroskahjálpar í íbúðir
Húsnæði Þroskahjálpar á Suðurnesjum við Suðurvelli í Reykjanesbæ verður breytt í íbúðir fyrir fatlaða einstaklinga. Engin starfsemi hefur verið í húsnæðinu frá því sveitarfélögin tóku yfir málefni fatlaðra.
Það voru þeir Ásmundur Friðriksson, formaður Þroskahjálpar á Suðurnesjum, og Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, sem undirrituðu samning þess efnis í liðinni viku. Innréttaðar verða sex einstaklingsíbúðir í húsunum við Suðurvelli, auk þjónusturýmis.
Þroskahjálp á Suðurnesjum mun sjá um breytingar á húsnæðinu og mun fá til sín sjálfboðaliða til að sinna ýmsum verkum til að halda niðri byggingarkostnaði. Fyrstu skrefin eru að teikna þær breytingar sem þarf að gera á húsunum en búast má við að framkvæmdir hefjist við breytingar hefjist um áramót. Reykjanesbær mun svo leigja húsnæðið til 25 ára og endurleigja íbúðir til fatlaðra og þjónusta íbúa.