Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Breti í haldi lögreglu eftir banahögg á Traffic
Laugardagur 13. nóvember 2004 kl. 11:22

Breti í haldi lögreglu eftir banahögg á Traffic

Í nótt kl. 04:13 í nótt var lögreglunni í Keflavík tilkynnt að danskur hermaður væri slasaður á veitingastað í Keflavík.  Maðurinn var fluttur meðvitundarlaus á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja þar sem hann lést skömmu síðar.  Vitni segja að hann hafi verið sleginn af einum gesta staðarins.   Lögreglan handtók þann grunaða og er hann í haldi lögreglunnar.  Rannsókn málsins er á frumstigi.

Sá látni er 33 ára gamall danskur hermaður sem mun hafa komið til landsins í gærkvöldi með herflugvél danska hersins og gist ásamt félögum í flugáhöfninni á hóteli í Keflavík. Í gærkvöldi mun hann hafa farið með félögum sínum út að skemmta sér í miðbæ Keflavíkur.  Atburðurinn átti sér stað á veitingastaðnum Traffic, Hafnargötu 30, Keflavík.

Að sögn vitna gerðist atburðurinn framan við bar veitingastaðarins. Hinn grunaði mun hafa slegið hinn látna einu höggi á höfuðið og farið síðan rakleitt út af veitingastaðnum. Hann er 29 ára gamall breskur ríkisborgari sem er búsettur hér á landi og var hann handtekinn á heimili sínu skömmu síðar. Virtist hann þá talsvert mikið ölvaður.

Þegar lögregla kom á staðinn var búið að færa hinn látna inn í starfsmannaðstöðu skemmtistaðarins þar sem sjúkraflutningamenn voru að gera á manninum endurlífgunartilraunir. Ekkert blóð var sjáanlegt á vettvangi eða á hinum látna, en nákvæm rannsókn á vettvangi hefur ekki farið fram. Málið er sem sagt á frumrannsóknarstigi og ekki hægt að gefa nánari upplýsingar um atburðinn fyrr en eftir helgina.

 

Ljósmyndir: Hilmar Bragi Bárðarson

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024