Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Brestir í samstöðu um Reykjanesbraut?
Frá baráttu Stopp-hópsins fyrir nokkrum misserum.
Sunnudagur 28. október 2018 kl. 22:05

Brestir í samstöðu um Reykjanesbraut?

- Guðbergur vill loka Reykjanesbraut en Ísak trúir ekki á svoleiðis aðgerðir

Brestir virðast í samstöðu Stopp-hópsins sem barist hefur fyrir bættu umferðaröryggi á Reykjanesbraut undanfarin misseri. Guðbergur Reynisson, einn af talsmönnum Stopp-hópsins talar fyrir því að Reykjanesbraut verði lokað á næstu dögum til að þrýsta á stjórnvöld og til að mót­mæla hæga­gangi við tvö­föld­un Reykjanesbrautar.
 
„Í þessarri viku mun Reykjanesbraut verða lokað um tíma í mótmælaskyni við aðgerðaleysi stjórnvalda. Og í næstu viku líka og þarnæstu. Ég veit ekki með ykkur en ég er búinn að fá nóg!!!,“ skrifaði Guðbergur í hópinn „Stopp hingað og ekki lengra!“ og deilir frétt af banaslysi á Reykjanesbraut í Hafnarfirði, sem varð snemma í morgun.
 
Fjörug umræða skapast um færslu Guðbergs og ekki allir á eitt sáttir um hvaða aðferð á að beita, hvort lokun brautarinnar skili árangri og hvort ekki sé bara betra að storma á Alþingi
 
Ísak Ernir Kristinsson er líka einn af talsmönnum Stopp-hópsins og hann er ekki sammála félaga sínum, Guðbergi.
 
„Ég trúi ekki á svona aðgerðir,“ skrifar Ísak í færslu á sinni eigin fésbókarsíðu og bætir við:
 
„Frá því að við Guðbergur Reynisson stofnuðum þrýstihópinn „Stopp, hingað og ekki lengra“ hefur hópurinn náð eftirtektarverðum árángri í að bæta umferðaröryggi a Reykjanesbraut! Frá upphafi hafa verið uppi háværar raddir um að fara í lokanir á Reykjanesbrautinni til þess eins að vekja athygli á málstaðnum. Ég hef alla tíð og er enn algjörlega mótfallinn svoleiðis aðgerðum enda hefur málefni Reykjanesbrautar verið í brennidepli! Við höfum náð árangri þó fullnaðarsigrinum hafi enn ekki verið náð.
 
Stöndum saman og vinnum málin á eðlilegan máta: í gegnum stjórnsýsluna og á sviði stjórnmálanna. Samgönguáætlun er til umfjöllunnar á Alþingi og er ekki útséð með að henni verði breytt okkur til hagsbóta!
 
Það skal þó skýrt tekið fram að samgönguáætlun Sigurðar Inga olli mér MIKLUM vonbrigðum! Áætlun með kolrangri forgangsröðun!,“ skrifar Ísak.
 
Margeir Vilhjálmsson skrifar við færslu Ísaks. „Ég er sammála þér - en hvað ætlarðu að gera sem annar forsvarsmaður hópsins? Guðbergur ætlar að loka brautinni - en þú trúir ekki á aðferðina? Er þetta þrýstihópur - eða bara enn eitt FB vælið?“.
 
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu blandar sér svo í málið en í frétt á mbl.is segir Guðbrandur Sigurðsson, aðal­varðstjóri um­ferðardeild­ar lög­regl­unn­ar á höfuðborg­ar­svæðinu „Það hef­ur eng­inn leyfi til að loka vegi án leyf­is.“ Hann bætir við: „Við veg­um þetta og met­um þegar þar að kem­ur. Ef þetta trufl­ar gang sam­fé­lags­ins og rýr­ir um­ferðarör­yggi gríp­um við til okk­ar ráða,“ seg­ir Guðbrand­ur en bæt­ir við að auðvitað sé æv­in­lega fyrst reynt að höfða til skyn­semi fólks.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024