Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Brestir í meirihlutanum í Grindavík?
Bæjarfulltrúar í bæjarstjórn Grindavíkur.
Föstudagur 20. júlí 2012 kl. 11:16

Brestir í meirihlutanum í Grindavík?

Svo virðist sem brestir séu komnir í meirihlutasamstarfið í Grindavík ef marka má bókanir í bæjarráði Grindavíkur á miðvikudagskvöld. Eftirfarandi bókun fulltrúa D-lista vekur þar athygli en í henni segir: „Fulltrúi D lista lítur svo á að fulltrúi B lista muni brjóta gegn málefnasamningi B- og D- lista ef hún samþykkir fyrirliggjandi ráðstöfun á Festi“.

Bæjarráð Grindavíkur hefur veitt bæjarstjóra heimild til að undirrita kaupsamning um sölu á 80% hlut Grindavíkurbæjar í Víkurbraut 58 ehf, með fyrirvara um samþykki bæjarstjórnar. Kvenfélag Grindavíkur og Ungmennafélag Grindavíkur, meðeigendur í félaginu, hafa nú tilboð í sína hluti til umfjöllunar.

Fulltrúi D-lista lagði fram tillögu um að farið verði með málefni Festi eins og getið er um í málefnasamningi flokkanna sem gerður var í upphafi kjörtímabilsins. Þar kemur fram „Bæjarfulltrúar B og D lista eru sammála um að:
-Byggja eigi upp Festi. Salurinn verður gerður upp með möguleika á að skipta honum niður og fundið út hvaða stofnanir og þjónusta eigi best heima þar t.d. stjórnsýslan, Þruman eða bókasafn.“

Fulltrúi D-lista telur núverandi áform um Festi ekki uppfylla óskir bæjarbúa sem komu skýrt fram fyrir síðustu kosningar og í loforðum allra flokka sem þá voru í framboð. Tillaga fulltrúa D-listans, sem er aðili að meirihlutasamstarfinu í Grindavík, var felld.

Fulltrúar B-, G-, og S-lista bókuðu á fundinum:

„Líkt og kom fram í málefnasamningi B- og D-lista segir að finna eigi út hvaða stofnanir og þjónusta eigi best heima þar, t.d. stjórnsýslan, Þruman og bókasafnið.
Bæjarstjórn hefur samþykkt að sameina bókasöfn bæjarins með aðsetur við Grunnskóla Grindavíkur, ungmennaráð Grindavíkur hefur ályktað að Þruman eigi best heima í Grunnskólanum, tónlistarskóli bæjarins nýtur góðs af því að vera í nálægð við Grunnskólann og hefur verið samþykkt að byggja upp nýjan tónlistarskóla við Grunnskólann. Stendur því aðeins eftir hvort flytja eigi stjórnsýsluna í Festi eða hafa hana áfram á núverandi stað. Búið er að eyða tugi milljóna í að gera upp húsnæði bæjarskrifstofunnar á núverandi stað sem er á 2. og 3. hæð. Verslun og þjónusta sækist ekki eftir því að vera á efri hæðum og er því mjög óljóst hvort og hvenær núverandi húsnæði bæjarskrifstofunnar seljist.
Ástæðan fyrir því að fólk vill gera upp Festi er sú að fólk leitar eftir veislusal, slíkur salur mun kosta bæjarfélagið tugi milljóna á ári í rekstrarkostnað án þess að skila inn tekjum og vera lítið notaður. Líkt og erindi er koma fram síðar á þessum fundi þá óska flest félagasamtök eftir því að fá að nota húsnæði bæjarins án endurgreiðslu. Er því mun betra að hanna íþróttahúsið svo hægt sé að nota salinn sem veislusal þegar þarf á að halda í staðinn fyrir að hafa veislusal tóman 350 daga á ári.
Það er auðvelt að samþykkja að gera upp Festi og hugsa ekki um rekstrarkostnað. En það krefst hugrekkis að gera sér grein fyrir því að fjármunum bæjarins er betur varið í þjónustu við bæjarbúa og leggja ekki þann bagga á komandi bæjarstjórnir að reka félagsheimili sem stendur aldrei undir sér“.

Undir þetta skrifa fulltrúar B-, G-, og S-lista.

Varaformaður bæjarráðs leggur til að bæjarstjóra verði falið að undirrita kaupsamninginn með fyrirvara um samþykki bæjarstjórnar. Þetta var samþykkt með tveimur atkvæðum gegn einu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024