Brennuvargur gengur laus
- kveikt í gamalli sprengjugeymslu Varnarliðsins
	Brennuvargur gengur laus í Reykjanesbæ en tvær íkveikjur hafa átt sér stað nú í morgun. Allt tiltækt slökkvilið var kallað út um kl. 5 í morgun eftir að tilkynnt var um eld í gömlu þvottahúsi Varnarliðsins á Ásbrú. Greiðlega gekk að slökkva eldinn.
	
	Um kl. 8 í morgun var svo slökkvilið kallað að gamalli sprengjugeymslu á Patterson. Þar logaði eldur í rusli innandyra. Slökkvilið frá Brunavörnum Suðurnesja slökkti eldinn.
	
	Rannsóknardeild lögreglunnar á Suðurnesjum fer með rannsókn málanna en talið er víst að um íkveikju sé að ræða í báðum tilvikum.
	
	


 
	
				


 
						 
						 
						 
						 
						 
						

 
				 
				 
				 
				 
				
 
				 
				 
				 
				