Brennuvargs leitað - video
Ummerki á vettvangi benda til þess að um innbrot og íkveikju hafi verið að ræða þegar eldur kom upp í vinnusal Bláfells ehf. á Suðurnesjum í vikunni. Við íkveikjuna var notaður eldfimur vökvi, sem var fyrir í húsnæðinu og var notaður við smíðar plastbáta, sem fyrirtækið annast.
Lögreglan á Suðurnesjum var kvödd á vettvang klukkan 23:27 á þriðjudagskvöldið síðastliðið. Talsverður reykur var í húsnæðinu en þar voru nokkrir plastbátar á mismunandi byggingarstigum. Svokallað sprinklerkerfi sem er í húsinu hafði slökkt eldinn að mestu er slökkviliðið mætti á staðinn, réð endanlega niðurlögum hans og reykræsti húsnæðið. Fyrirtækið er til húsa í þremur samliggjandi skemmum og tjón hefði getað orðið gríðarlegt hefði eldurinn náð að breiðast út. Engu að síður varð mikið tjón vegna eldsvoðans.
Lögreglan á Suðurnesjum naut aðstoðar tæknideildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu við rannsókn á vettvangi. Málið er í rannsókn og eru þeir, sem kunna að búa yfir upplýsingum um grunsamlegar mannaferðir við fyrirtækið á ofangreindum tíma, beðnir um að hafa samband við lögregluna á Suðurnesjum í síma 420-1800.