Brennuvargar við Háabjalla
Ófögur sjón blasti við hópi skógræktaráhugafólks frá Vogum þegar þau lögðu leið sína upp í skógræktarsvæðið við Háabjalla í gær á degi umhverfisins.
Þar höfðu óprúttnir brennuvargar unnið miklar skemmdir á skóginum á fimm stöðum auk þess sem skilti leikskólans Suðurvalla hafði verið brennt.
Þetta níðingsverk vakti óhug viðstaddra, enda er ljóst að verknaðurinn hefði getað valdið enn meiri skemmdum ef eldurinn hefði hlaupið í fleiri tré í skógræktinni.
Kristján Baldursson, tækni- og umhverfisstjóri Vatnsleysustrandarhrepps, sagði í samtali við Víkurfréttir að aðkoman hafi verið ljót. „Það er ótrúlegt að fólk sé vísvitandi að eyðileggja fallega hluti sem fólk vinnur að í góðum hug.“
Þeir sem geta gefið upplýsingar um skemmdarverkin geta haft samband við Oktavíu Ragnarsdóttur, formann skógræktarfélagsins Skógfells í síma 849-0247.