Brennandi hús reyndist varðeldur
Brunavörnum Suðurnesja barst í gær tilkynning um að eldur logaði að Hafurbjarnarstöðum við Sandgerði. Slökkvilið frá Sandgerði og Reykjanesbæ var því kallað til, ásamt sjúkraliði og lögreglu.
Þegar slökkvilið kom á staðinn reyndist hins vegar um stóran varðeld að ræða. Eldurinn var fljótt slökktur.
Samkvæmt upplýsingum frá Brunavörnum Suðurnesja mættu 13 slökkviliðsmenn í útkallið, enda ekki ljóst frá fyrstu stundu að eldurinn logaði utan við húsið.
Hjá slökkviliði fengust einnig þær upplýsingar að talsvert sé að færast í vöxt að útköll berist vegna elda þar sem fólk er að brenna rusli. Síðast í byrjun þessarar viku þegar rusli var brennt í heimagerðu eldstæði í Njarðvík.
Meðfylgjandi mynd var tekin fyrr í mánuðinum þegar myndarlegur eldur logaði við íbúðarhúsið að Hafurbjarnarstöðum. Eldurinn í gær brann á sama stað.