Brenna kaffi fyrir Fjölskylduhjálp og Mæðrastyrksnefnd og bjóða á opið hús
Opið hús verður í Kaffitári við Stapabraut 7 í Reykjanesbæ nk. laugardag, 4. desember kl. 14 til 16 og eru allir velkomnir. Uppákoman er í samstarfi við Samtök iðnaðarins vegna átaks um kynningu á íslenskum iðnaði. Þema dagsins verður „hvað eru jólin án íslenskrar matarhefðar“?
Kaffitár er eitt af stærstu fyrirtækjunum á Suðurnesjum með um 45 starfsmenn í höfuðstöðvunum á Stapabraut og 70 starfsmenn á átta kaffihúsum fyrirtækisins.
„Við státum af frábæru fyrirtæki og starfsfólki sem oft hafa tekið sig til og styrkt hin ýmsu málefni eins og söfnunina á Ljósnótt fyrir Lund og Björgina. Einnig höfum við styrkt börn kaffitínslufólks á búgarðinum Jesús María í Níkaragúa, bæði um húsgögn og ritföng fyrir skólann sem Ricardo Rosales eiganda búgarðsins byggði en mikið ólæsi er meðal barna verkamann í kaffitínslu,“ segir Kristbjörg Gunnbjörnsdóttir framleiðslustjóri hjá Kaffitári.
Á laugardaginn munuu starfsmenn Kaffitárs hafa fulla framleiðslu í vinnslunni á meðan opnunin stendur yfir.
„Við munum framleiða kaffi og smákökur til styrktar Mæðrastyrksnefnd og Fjölskylduhjálpar Íslands,“ segir Kristbjörg en starfsmennirnir gefa vinnuna sína og fengu styrk frá Kaffitári á kaffibaunum og styrki frá öðrum fyrirtækjum sem við eigum viðskipti við eins og Nóa Síríus, Vörumerkingu og Odda.
Opið er laugardaginn 4. desember frá 14-16 og allir velkomnir.