Breikkun fagnað í Stapa
Á fundinn í Stapa sem boðið var til í tilefni þess að breikkun Reykjanesbrautar væri hafin, mættu vel á annað hundrað manns. Þar flutti Steinþór Jónsson, formaður Áhugahóps um örugga Reykjanesbraut stutta tölu og félagar hans í hópnum afhentu Sturlu Böðvarssyni, samgönguráðherra og Helga Hallgrímssyni vegamálastjóra blóm. Samgönguráðherra sagði að dagurinn væri stór og ánægjulegur: “Það hefur verið ánægjulegt að koma að þessu með forráðamönnum Áhugahópsins sem hafa staðið mjög faglega að öllum málum. Hvað varðar framhald tvöföldunarinnar er undir þingmönnum og ráðherrum komið. Ég þarf að fara eftir því sem fjárlög leyfa og Vegaáætlun. Hér inni eru aðrir ráðherra og þingmenn og þeir geta haft áhrif á það mál. Ég vil því bara nota tækifærið og kalla eftir frekari fjármunum inn í samgöngumálin til að klára þetta stóra verkefni", sagði Stula m.a. í ræðu sinni . Hann sagði einnig að á sínum ráðherraferli stæðu tveir fundir upp úr í minningunni. Það væri 400 manna fundur í Vestmannaeyjum og síðan þessi stóri þúsund manna fundur í Stapa um Reykjanesbrautin sem hafi lýst vel krafti og samstöðu Reyknesinga.