Breiðþota Air France millilenti með veikan farþega
Boeing 777-300 farþegaþota Air France á leið frá París til Los Angeles millilenti á Keflavíkurflugvelli síðdegis á þriðjudag með veikan farþega. Flugvélinni var lagt við gömlu flugstöðina á Austurflughlaði Keflavíkurflugvallar, sem áður var notað af varnarliðinu, enda háannatími við Leifsstöð. Farþeginn var fluttur frá borði og á sjúkrahús í Reykjavík.
Flugvélin tók viðbótareldsneyti, enda dýrt spaug að þurfa að millilenda á svo langri leið, og var búist við að hún héldi áfram för sinni.
Keflavíkurflugvöllur liggur beint við flugleiðinni milli Evrópu og Kaliforníu sem kemur í góðar þarfir í tilvikum sem þessum. Boeing 777-300 breiðþotur Air France taka milli 300 og 400 farþega og vega um 300 lestir fullhlaðnar. Hreyflar þeirra eru öflugustu flugvélahreyflar sem í notkun eru.
Frá þessu er greint á vef Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar.