Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Breiðari afturendi Sunnu Lífar lítur ansi vel út
Ritstjórn
Ritstjórn skrifar
laugardaginn 21. september 2019 kl. 08:00

Breiðari afturendi Sunnu Lífar lítur ansi vel út

– Línubátarnir farnir á flakk

Tíminn líður áfram og ekkert fær stoppað hann. Já og núna er komið fram yfir miðjan september og bátarnir komnir svo til á fullt. Þá fara stóru línubátarnir á flakk víða um landið og það þýðir að trukkabílstjórarnir hjá t.d. Jóni og Margeiri í Grindavík fá nóg að gera við að sækja fisk.

Sighvatur GK hefur reyndar haldið sig í Grindavík og landað þar 216 tn í tveimur róðrum og mest 134 tn í einni löndun. Þar hefur Páll Jónsson GK líka landað 175 tn í tveimur róðrum. Aðrir bátar eru t.d. Kristín GK með 154 tn í tveimur og Fjölnir GK með 167 tn í tveimur á Sauðarkróki. Valdimar GK 165 tn í þremur og Sturla GK 159 tn í fjórum, báðir á Siglufirði. Jóhanna Gísladóttir GK með 152 tn í þremur á Djúpavogi. Reyndar fer ekki allur fiskurinn af þessum bátum til Grindavíkur, því að einungis þorski, ufsa og ýsu er ekið suður, restin fer á fiskmarkað.

Það eru ekki bara stóru bátarnir sem eru úti á landi. Margir minni bátanna eru þar einnig og þar kemur Skagaströnd nokkuð sterk inn. Þar er t.d. nýjasti báturinn í flota Sandgerðinga, Guðrún GK, sem er í eigu Blikaness ehf. sem er, eins og áður hefur komið fram, í eigu Gylfa Sigurðssonar og föður hans, Sigurðar. Guðrún GK hefur landað 55 tn í ellefu róðrum, Beta GK var með 41 tn í tíu, Dúddi Gísla GK 32 tn í átta og Alli GK með tólf tn í þremur róðrum. Alli GK er líka í eigu Blikaness ehf., en hann er núna kominn á söluskrá. Óli á Stað GK er með 95 tn í þrettán, Vésteinn GK 82 tn í tíu, Gísli Súrsson GK 62 tn í tíu, Daðey GK með 40 tn í níu, Dóri GK með 32 tn í sjö og Geirfugl GK með 29 tn í níu.

Athygli vekur að fyritækið Stakkavík ehf. í Grindavík hefur ekki enn sent bátinn Guðbjörgu GK til veiða. Guðbjörg GK er stærsti báturinn sem Stakkavík ehf. á og gerir út. Ansi mikill kvóti er á Guðbjörgu GK eða um 1800 tonna kvóti. Grímsnes GK hefur fengið kvóta frá Guðbjörgu GK, því að búið er að færa 73 tonn af þorski frá Guðbjörgu GK og yfir á Grímsnes GK. Í listanum að framan eru aðeins tveir bátar á vegum Stakkvíkur, Óli á Stað GK og Geirfugl GK. Veiðin hjá netabátunum hefur verið nokkuð góð og hefur Bergvík GK landað 20 tn í sex róðrum í Sandgerði og mest 5,6 tn í róðri. Maron GK með 27 tn í níu, Halldór Afi GK 22 tn í ellefu, Hraunsvík GK 18 tn í tíu. Sunna Líf GK hefur verið bæði á netum og skötuselsnetum og landað 6,9 tn í fimm róðrum.

Og fyrst búið er að nefna Sunnu Líf GK á nafn þá má geta þess að báturinn var frá veiðum í um fjóra mánuði því að báturinn var í umfangsmiklum breytingum hjá Sólplasti í Sandgerði en saga bátsins og hins bátsins er nokkuð merkileg. Það var nefnilega þannig að í janúar árið 2004 fékk báturinn Sigurvin GK á sig brotsjó í innsiglingunni til Grindavíkur og strandaði í kjölfarið. Björgunarsveitin Þorbjörn í Grindavík bjargaði áhöfn bátsins, tveimur mönnum við ansi erfiðar aðstæður. Báturinn sjálfur skemmdist mikið og var að lokum dæmdur ónýtur. Flakið af bátnum var flutt til Sandgerðis og var lengi fyrir utan húsnæði Sólplasts. Búið var að endurbyggja skutinn á Sigurvin GK með því að breikka hann og lengja og var hann ekki svo mikið skemmdur. Þegar útgerðarmaður Sunnu Lífar GK ákvað að láta breyta bátnum, var tekin ákvörðun um að saga afturendann af Sigurvini og skeyta honum saman við Sunnu Líf GK. Afturendinn af Sunnu Líf GK var sagaður af og breiðari og stærri afturendi var settur á Sunnu Líf GK. Sunna Líf lítur ansi vel út svona eftir þessa breytingar og stækkaði báturinn aðeins við þetta. Fyrir breytingar var Sunna Líf GK 13,7 brúttótonn, en er í dag 16,1 brúttótonn og orðin um einum metra lengri.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024