Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Bréf til biskups: Að ganga framhjá séra Sigfúsi er alls ekki það sem bærinn okkar þarfnast núna
Föstudagur 7. apríl 2006 kl. 22:39

Bréf til biskups: Að ganga framhjá séra Sigfúsi er alls ekki það sem bærinn okkar þarfnast núna

Stuðningsmenn séra Sigfúsar B. Ingvasonar hafa sent biskupi Íslands bréf vegna þeirrar stöðu sem komin er upp í málefnum sóknarprests í Keflavík. Víkurfréttir hafa undir höndum útdrátt úr bréfi til biskups og er það hér meðfylgjandi:

„Okkur voru að berast þær fréttir að valnefnd varðandi val á sóknarpresti í Keflavíkurprestakalli hefði ekki mælt með núverandi presti, sr. Sigfúsi B. Ingvasyni í starf sóknarprests. Þetta finnst okkur vera algerlega úr takti við þá einingu og ánægjuraddir sem heyrast um störf Sigfúsar síðustu 13 árin sem hann hefur starfað hér í Keflavík. Sigfús og eiginkona hans hafa áunnið sér traust og virðingu í stórum hópi sóknarbarna sinna og viljum við skora á þig að sína þeim slíkt hið sama.

Ljóst er að mörg hundruð manns sem vinna á Keflavíkurflugvelli hafa fengið uppsagnarbréf og munu þurfa að breyta starfsvettvangi sínum að einhverju eða öllu leyti. Sú óeining og óánægja sem það hefði í för með sér ef gengið verður fram hjá sr. Sigfúsi í skipan embættisins er alls ekki það sem bærinn okkar þarfnast núna. Við biðjum þess að þið sem enn hafið vald til að snúa þessum gerningi berið gæfu til að gera svo

Á vefnum kirkjan.is kemur fram að valnefnd hafi vísað vali á sóknarpresti til biskups, sem mun leggja til við ráðherra að ráða sr. Skúla Ólafsson í starf sóknarprest.

Verði af þessum óskiljanlega gjörningi, þá lýsir það vanmati valnefndarinnar á störfum núverandi sóknarprest sem hefur þjónað okkur öllum vel í 13 ár og á ekkert nema gott skilið. Hvar er mannkærleikurinn? Eru verk og reynsla verðlaus í vali á sóknarpresti? Hefur álit bæjarbúa ekkert vægi?

Hvar sem sr. Sigfús kemur, kemur hann með sólina með sér, hans starf hefur bætt samfélagið hér í bæ. Þá sjaldan er maður kemur í kirkju, þá furðar maður sig á hvað það var gaman og bætandi.

Það að núverandi prestur skuli ekki fá fullan stuðning valnefndar lýsir að mínu mati vanhæfi nefndarinnar og allt öðru en kristilegum kærleika sem á að endurspegla það góða sem menn gera, en ekki uppruna og ættir fólks. Verði að þessu, mun kirkjan endanlega missa virðingu fólksins, enda engin rök til fyrir þessu.

Ég skora á þig að virða það góða starf sem sr. Sigfús og fjölskylda, ásamt sr. Ólafi Oddi hafa unnið og byggt upp hér í Keflavík. Það að skipta út sóknarprestinum nú á þessum tímum mun væntanlega verða til þess að kljúfa sóknina og auka vanlíðan fólksins. Þá gæti einnig skapast grunnur til að stofan óháðan söfnuð hér á Suðurnesjum.

Með þessum skrifum er ekki verið að gagnrýna sr. Skúla Ólafsson, heldur valnefndina og fyrirkomulagið sem í þessu tilviki mun valda sókninni óbætanlegum skaða. Það væri reyndar frábært að fá sr. Skúla sem aðstoðarprest.

Farið er fram á að þú skipir nýja valnefnd eða mælir með ráðningu núverandi sóknarprests.“
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024