Braust inn í sautján bíla
Lögreglan á Suðurnesjum handtók síðastliðna nótt karlmann sem grunaður er um að hafa brotist inn í sautján bíla í umdæminu, alla í sömu atrennunni. Lögregla fékk tilkynningu um að maður væri að reyna að komast inn í bíla á tilteknu svæði og fór þegar á staðinn. Ný spor í snjónum leiddu lögreglumenn að bíl einum og undir honum reyndist maður liggja í felum. Hann var handtekinn og færður á lögreglustöð. Viðurkenndi hann að hafa brotist inn í bíla á umræddu svæði. Hann hafði töluvert af smámynt upp úr krafsinu, en einnig fundust hjá honum munir sem grunur leikur á að séu þýfi.
Lögreglan brýnir fyrir fólki að ganga vel og tryggilega frá bílum sínum, læsa þeim og láta ekki verðmæti liggja á glámbekk í þeim.