Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Þriðjudagur 7. ágúst 2001 kl. 11:46

Brast í bátnum þegar ókindurnar voru hífðar um borð

Eldey kom með vænan afla að landi í Grindavíkurhöfn sl. föstudag. Uppistaða aflans var um 1700 kg. af lúðu en tveir myndarlegir fískihákarlar og lítill háhyrningur, fylgdu með.

Ljósmyndasýning hér að neðan.Að sögn Baldurs Haukssonar skipsstjóra, náðu þeir hákörlunum 70 mílur suðvestur af Reykjanesi á fimmtudeginum. „Þeir voru báðir lifandi þegar við náðum þeim. Sá minni var vafinn í línuna en sá stóri beit á krókinn, ætli hann sé ekki um 700-800 kg að þyngd og um 3 metrar á lengd“, segir Baldur en að sögn eldri manns sem átti leið um bryggjuna þegar þetta var þá geta fiskihákarlar hæglega orðið 6 metrar að lengd. Skipverjar voru á einu máli um að hamagangurinn hafi verið talsverður þegar kvikindin voru hífð um borð. „Það brakaði og brast í öllu en annars voru þeir nokkuð rólegir. Þegar við vorum búnir að gera að þeim stóra lá hann reyndar hvæsandi við lúguna í svo litla stund.“
Þegar farið var að gera að þeim stóra kom í ljós að hann hafði nýlega snætt lítinn háhyrning. Hann var þó ekki talin vera hæf ljósmyndafyrirsæta þar sem hann var töluvert illa farinn eftir meltingarvökva hákarlsins ógurlega.
„Þetta er í fyrsta skipti sem við fáum hákarl. Við hentum lifrinni, þar sem enginn markaður er fyrir hana, en nú verður hákarlinn verkaður og við skiptum honum bróðurlega á milli okkar. Honum verður síðan skolað niður með ísköldu íslensku brennivíni“, segir Baldur og ekki er laust við að nokkurrar tilhlökkunar gæti í röddinni.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024