Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Bræður björguðu kafara úr lífsháska
Þriðjudagur 26. júní 2012 kl. 09:46

Bræður björguðu kafara úr lífsháska




„Við heyrðum hrópað á hjálp en vissum ekki hvaðan kallið kom,“ segja bræðurnir Valdimar og Óskar Axelssynir sem björguðu kafara úr lífsháska við Hjalteyri í Eyjafirði í fyrradag. Valdimar er Keflvíkingur og er m.a. afi tónlistamannsins Valdimars Guðmundssonar. Viðtal við bræðurna birtist á vefsíðunni Vísi.is.

Þegar bræðurnir urðu varir við köllin stukku þeir um borð í bát sinn og sigldu út úr höfninni.
„Þegar við komum úr höfninni sáum við eitthvað standa upp úr sjónum. Þegar við komum nær reyndist þetta vera kafari. Hann hafði orðið loftlaus og var búinn að missa öll tök og búinn að losa sig við flesta kúta og þess háttar,“ segir Óskar. Kafarinn, sem er þrautþjálfaður, var eins og gefur að skilja farinn að óttast um líf sitt og vissi að hann væri kominn með kafaraveiki, enda hafði hann verið á miklu dýpi og þurft að fara hratt upp.

Bræðurnir áttu erfitt með að ná kafaranum um borð og brugðu þá á það ráð að binda hann við síðu bátsins og sigla þannig með hann í land. „Við erum líka vanir að draga blöðruseli með þessum hætti,“ segir Óskar og hlær. „Hann hresstist nú allur við þegar við náðum honum." Bræðurnir sigldu með kafarann í land þar sem konur þeirra hlúðu að honum og hringdu í Neyðarlínuna. Kafarinn hafði ekki verið einn á ferð og fóru bræðurnir því aftur út til að leita að félaga hans. „Þegar við fundum hann var hann bara á kafi að leika sér,“ segir Valdimar. Kafararnir tveir höfðu orðið viðskila.

Að sögn bræðranna var kafarinn strax viss um að hann væri með kafaraveiki og þyrfti því að fara á Landspítalann, en þar er eini þrýstijöfnunarklefinn á landinu. Maðurinn var fluttur með sjúkraflugi frá Akureyri til Reykjavíkur. Hann var fluttur á Landspítalann.


Frétt og mynd frá Vísi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024