Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Bótaþegar flytjast til Reykjanesbæjar í auknum mæli
Þriðjudagur 16. ágúst 2011 kl. 14:48

Bótaþegar flytjast til Reykjanesbæjar í auknum mæli

„Tölurnar tala sínu máli. Þeim fer ekki fækkandi sem leita til okkar eftir aðstoð. Neyðin virðist frekar vera að aukast,“ segir Rúnar Már Sigurvinsson, rekstrarráðgjafi hjá félagsþjónustunni hjá Reykjanesbæ í samtali við Morgunblaðið sem kom út í dag. Tölurnar sem vísað er til er fjárhagsaðstoð Reykjanesbæjar frá hruni október 2008 sem nemur tæpum 300 milljónum króna. Það nemur 15 milljónum á mánuði og mun að óbreyttu nema samanlagt 375 milljónum kr. á tímabilinu í árslok. Sé gengið út frá því að hún haldist svo óbreytt út næsta ár bætast við 180 milljónir kr. og fer heildarupphæðin þá í 555 milljónir frá hrunisem er gríðarleg upphæð fyrir jafn lítið sveitarfélað og Reykjanesbæ sem telur 14.073 íbúa. Til samanburðar mætti segja að ef sama aðstoð væri veitt til hvers íbúa á höfuðborgarsvæðinu þar sem 201.000 manns búa myndi upphæðin nema 5,36 milljörðum í lok þessa árs.

Svo virðist vera að erfiður leigumarkaður á höfuðborgarsvæðinu beini þeim tekjuminni til Suðurnesjanna þar sem leiguverð er allt að 40% ódýrara. Bótaþegum í Reykjanesbæ fjölgar um 31% milli ára en í fyrra þáðu 120 manns bætur frá Reykjanesbæ en nú eru þeir 138 sem þurfa á aðstoð að halda. Til samanburðar má nefna að 52 þáðu bætur þegar efnahagshrunið átti sér stað í október 2008.

Anna Valdís Jónsdóttir hjá Fjölskylduhjálp Íslands í Reykjanesbæ tekur í sama streng og Rúnar og segir mikið af fólki eiga bágt hér í Reykjanesbæ. Fólk hafi misst vinnu og húsnæði og eygi orðið enga von. Hún segir jafnframt að ástandið fari frekar versnandi og ekki sjái fyrir endann á þessu ástandi. Fjölskylduhjálp í Reykjanesbæ fær orðið 240 fjölskyldur til sín í lok mánaðar sem þurfa á aðstoð að halda.

Anna segir jafnframt að fólk sé oft komið að því að bugast. „Ég fer oft grátandi heim á kvöldin. Það tekur ofboðslega á að hitta fólkið. Þegar fólk þarf að leita í notaðan skófatnað er eitthvað mikið að í samfélaginu,“ segir Anna Valdís. „Til okkar hefur komið kona og tvívegis spurst fyrir um skó handa barni sínu en við höfum því miður ekki átt skó með númeri barnsins, móðir og barna hafa því farið vonsvikin heim,“ segir Anna og biðlar til fólks að láta Fjölskylduhjálpinni í té vel farinn fatnað og skófatnað.

Nánr má lesa um málið hér á vefsíðu Morgunblaðsins.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024