Börnum fjölgar í Reykjanesbæ
Mikil fjölgun barna varð í Reykjanesbæ á síðasta ári og eru nú yfir 2000 börn í grunnskóla og leikskólabörn 800 talsins.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjanesbæ og er vísað til umræðna á íbúafundi með bæjarstjóra í Höfnum í gær þar sem þetta var rætt.
Börn í grunnskóla voru 1845 árið áður og leikskólabörnum hefur fjölgað úr 658 í 800 frá 2007.
Nánast helmingurinn af þessari fjölgun barna er á Vallarheiði en ráðgert er að opna þar nýjan leikskóla og grunnskóladeild fyrir nemendur í 1. - 5. bekk haustið 2008 . Hjallastefnan ehf. rekur þar jafnframt leikskólann Völl.
Reykjanesbær hefur því brugðist hratt við til þess að tryggja öllum nemendum sambærileg menntunarskilyrði. Mikil fjölgun íbúa kallar á byggingu nýrra leikskóla og stækkun og endurbætur á þeim eldri. Nýbyggingu við leikskólann Vesturberg verður væntanlega lokið í sumar, fyrirhuguð er viðbygging við Hjallatún og undirbúningur leikskóla í Dalshverfi er hafinn.
Grunnskólar bæjarins eru nú orðnir sex talsins með tilkomu Barnaskóla á Vallarheiði, leikskólar eru níu talsins og verða 10 með nýjum leikskóla á Vallarheiði.
Mynd/ www.reykjanesbaer.is