Börnin á Vesturbergi æfðu viðbrögð við eldsvoða
Árlegar rýmingaræfingar á leikskólum hófust hjá Brunavörnum Suðurnesja í morgun. Á slaginu kl. 10 mætti slökkviliðið á leikskólann Vesturberg í Keflavík. Þar höfðu leikskólakennarar safnað börnunum saman fyrir utan leikskólann, þar sem húsið var fullt af reyk.
Reykurinn var svokallaður gervireykur sem er notaður á æfingum sem þessum. Eins og gefur að skilja tóku börnin uppákomunni misjafnlega. Sumum fannst spennandi að slökkviliðsmenn í fullum herklæðum væru mættir á staðinn, meðan önnur grétu í hálsmálið á leikskólakennaranum sínum. Allt fór þó vel og fljótlega mátti hefja störf og leik að vana.
Næstu daga og vikur verður farið í samskonar æfingar á öðrum leikskólum á starfssvæði Brunavarna Suðurnesja, sem er í Reykjanesbæ, Garði og Vogum.
Mynd: Hilmar Bragi Bárðarson