Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Börn léku sér með stórhættulega sprengju
Laugardagur 12. apríl 2003 kl. 14:34

Börn léku sér með stórhættulega sprengju

Sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar sprengdu í dag stórhættulega sprengju við útivistarsvæðið að Háabjalla. Sprengjan inniheldur um 5 kíló af sprengiefni og er mjög hættuleg því sprengibrot þeytast í allar áttir þegar hún springur. Sprengjuna fundu ungir drengir sem voru að leik í skógræktinni í gærdag. Drengirnir köstuðu sprengjunni í poll og héldu að þeir myndu vera óhultir ef hún spryngi þar. Foreldrar drengjanna tilkynntu Lögreglunni í Keflavík um sprengjuna, en að sögn eins foreldranna sinnti lögreglan ekki málinu. Gripu foreldrarnir því til þess ráðs að tilkynna um málið til Landhelgisgæslunnar.
Hér má sjá myndir af sprengingunni.Sigurður Ásgrímsson sprengjusérfræðingur Landhelgisgæslunnar sagði í samtali við Víkurfréttir að svæðið í kringum Háabjalla væri sprengjusvæði eftir heræfingar á fyrri árum. Sagði hann að óskað hefði verið eftir því að sett yrðu upp skilti á svæðinu þar sem varað væri við því að sprengjur kunni að leynast þar. Yfir 600 virkar sprengjur hafa fundist á þessu svæði og hefur Landhelgisgæslan gengið um svæðið og hreinsað til. Gríðarlegur hvellur kom þegar sprengjan sprakk og nötraði jörðin og þarf ekki að spyrja að því hvernig farið hefði ef sprengjan hefði sprungið þegar drengirnir voru að leika sér með hana. Sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar leita nú að fleiri sprengjum í skóginum að Háabjalla.

VF-ljósmyndir/Jóhannes Kr. Kristjánsson
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024