Börn í Garði fá farmiðakort á 500 krónur
Börn í Garðinum, 16 ára og yngri, fá farmiðakort í almenningssamgöngur fyrir 500 krónur. Hvert farmiðakort eru 20 farmiðar, kostar kr. 2.500, en börnin borga kr. 500 fyrir kortið. Mismunurinn er styrkur frá Sveitarfélaginu Garði.
„Við miðum við að hvert barn fái að jafnaði eitt kort í mánuði, en það getur auðvitað verið mismunandi allt eftir því hvað hvert barn þarf að fara oft með strætó, t.d. á íþróttaæfingar í Sandgerði eða Reykjanesbæ,“ segir Magnús Stefánsson, bæjarstjóri í Garði. Farmiðakortin eru afgreidd í íþróttahúsinu í Garði.
Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Garðs samþykkti á dögunum að niðurgreiða almenningssamgöngur barna og ungmenna um 80% og var bæjarstjóra falið að útfæra framkvæmdina.