Borgaraleg handtaka í Grindavík
Húsráðandi í Grindavík kyrrsetti ölvaðan ökuþór þar til lögreglan á Suðurnesjum kom á vettvang í nótt. Ökumaðurinn hafði þá ekið upp á og yfir kantstein í Grindavík, þaðan eftir grasflöt og utan í járnstaur, sem heldur uppi gervihnattardiski.
Fyrir framan járnstaurinn voru grjóthnullungar sem köstuðust í íbúðarhús, sem hann stóð við og skemmdu járnklæðningu á því. Húsráðandinn heyrði mikinn hvell og hávaða. Þegar hann kom út sat ökumaðurinn enn í bílnum en tveir farþegar létu sig snarlega hverfa.
Maðurinn var handtekin og færður á lögreglustöð. Hann var með þrjár fullar bjórdósir í úlpuvösum sínum.