Borgarafundurinn í kvöld: Kalla eftir skýrum stuðningi ríkisstjórnarinnar
Sveitarfélög og launþegahreyfingin á Suðurnesjum efna til borgarafundar um atvinnumál í dag, mánudag, kl. 18:00. Yfirskrift fundarins er „Baráttan um vinnu“ og verður fundurinn haldinn í Fjölbrautaskóla Suðurnesja í Reykjanesbæ.
Tilefni fundarins er að kalla eftir skýrum stuðningi ríkisstjórnarinnar til uppbyggingar þeirra miklu atvinnutækifæra sem geta farið af stað um næstu áramót ef ekki verða frekari tafir.
Stærstu áformin í atvinnuuppbyggingu, s.s. álver, kísilver og gagnaver, krefjast orku sem þarf að flytja á milli staða. Þeim er teflt í tvísýnu með ákvörðun umhverfisráðherra að tefja enn frekar vinnu við raforkulagnir um Suðurnes. Óljóst er hvort tafir á uppbyggingu vegna ákvörðunar ráðherrans þýða mánuði eða ár. Úr þessu þarf ríkisstjórnin strax að skera. Þá hefur ríkisstjórnin ekki svarað því hvort og með hvaða hætti hún hyggst styðja hafnargerð í Helguvík sem engu að síður er langt komin.
Öllum töfum í atvinnuuppbyggingu er stefnt gegn atvinnulausum og tekjulágu fólki, sem beðið hefur árum saman eftir öruggum og vel launuðum störfum. Yfir 1600 manns eru nú atvinnulausir á Suðurnesjum.