Borgarafundur um nýtt aðalskipulag Sveitarfélagsins Voga
Um 50 manns sóttu borgarafund um nýtt aðalskipulag Sveitarfélagsins Voga, sem haldinn var í Tjarnarsal í gær. Á fundinum var kynnt tillaga að nýju aðalskipulagi sem skal gilda til 2027. Tillöguna má skoða á www.vogar.is , en gert er ráð fyrir að þéttbýli við Voga vaxi umtalsvert á tímabilinu og að íbúafjöldi árið 2027 nálgist 3.500 íbúa. Samhliða verði byggð upp frekari þjónusta, svo sem viðbygging við skóla, nýir leikskólar og aukin verslun og þjónusta.
Stefna bæjarstjórnar er að Sveitarfélagið Vogar þróist áfram sem vistvænt sveitarfélag með áherslu á fjölskylduvænt umhverfi, fjölbreytt náttúru- og útivistarsvæði og hátt þjónustustig. Í skipulagi þéttbýlisins er gert ráð fyrir grænu belti sem tengir hverfi bæjarins saman og auðveldar meðal annars aðkomu að útivistarsvæðum. Græna beltið hlykkjast í gegnum byggðina frá norðri til suðurs, frá Grænuborg suður að Síkistjörnum, en gengið er út frá því að útvistarsvæðu séu alltaf í göngufæri fyrir börn. Í dreifbýlinu er lögð áhersla á að verja þá sérstöðu sem felst í því að hafa dreifbýli með fallegri ósnortinni strönd og fallegri fjallasýn í nágrenni við helstu þéttbýlis og ferðamannastaði landsins.
Að lokinni kynningu tóku fundarmenn þátt í þremur umræðuhópum, um málefni þéttbýlisins, dreifbýlisins og um þróun samfélagsins á skipulagstímanum. Umræður voru líflegar og komu margar góðar ábendingar fram í dagsljósið sem vinnuhópur um aðalskipulag mun vinna úr á næstu vikum. Gert er ráð fyrir því að endanleg aðalskipulagstillaga verði auglýst næstkomandi haust og staðfest í upphafi nýs árs.
VF-mynd/Hilmar Bragi