Borgarafundur í Stapa í kvöld
- „Þetta verður sögulegur hitafundur“
Einn stærsti borgarafundur sem haldinn hefur verið lengi í Reykjanesbæ fer fram í kvöld í Stapa, Reykjanesbæ kl. 20:00. Hagsmunasamtök heimilanna efna til fundarins undir yfirskriftinni „Fast er sótt á Suðurnesjamenn“. Umræðuefni fundarins er slæm fjárhagsstaða heimila á Suðurnesjum.
„Þetta verður án nokkurs vafa sögulegur hitafundur,“ segir Bjarni Bergmann Vilhjálmsson, stjórnarmaður í Hagsmunasamtökum heimilana. „Þórólfur Halldórsson, sýslumaður í Keflavík, ætlar að mæta og svara spurningum en það eru fjögur uppboð á húsnæði á dag á Suðurnesjum. Verkalýðsforinginn Vilhjálmur Birgisson frá Akranesi mætir einnig auk Árna Sigfússonar, bæjarstjóra í Reykjanesbæ. Þetta er í fyrsta sinn sem Hagsmunasamtök heimilana fara út fyrir höfuðborgarsvæðið með fund. Hér á Suðurnesjum er neyðin mest. Ég á von að fjölmenni á fundinum í kvöld.“
Framsögumenn eru:
Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar
Þórólfur Halldórsson, sýslumaður í Keflavík
Oddný Harðardóttir, þingmaður í suðurkjördæmi
Ólafur Garðarsson, formaður HH
Að framsögum loknum taka við pallborðsumræður þar sem fulltrúum stjórnmálaflokka sem bjóða fram í Alþingiskosningum hefur verið boðið til þátttöku. Staðfestir þátttakendur eru: Oddný Harðardóttir (Samfylking), Inga Sigrún Atladóttir (VG) Sigurður Ingi Jóhannsson (Framsókn), Ragnheiður Elín Árnadóttir (Sjálfstæðisflokkur) Andrea J. Ólafsdóttir (Dögun), Guðmundur Franklín Jónsson (Hægri grænir), Þorvaldur Þorvaldsson (Alþýðufylkingin), Helgi Hrafn Gunnarsson (Píratar).
Vakin er athygli á því að fundurinn verður kvikmyndaður.