Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Borgarafundur í Sandgerði: samvinna lykilatriði
Föstudagur 24. janúar 2003 kl. 15:18

Borgarafundur í Sandgerði: samvinna lykilatriði

Sandgerðislistinn stóð fyrir borgarafundi sem haldinn var í Sandgerði í gærkvöldi þar sem atvinnumál bæjarins voru rædd. Að sögn Ólafs Þórs Ólafssonar bæjarfulltrúa Sandgerðislistans og fundarstjóra var um fjörugan fund að ræða, en um 80 manns mættu á fundinn. Fjölmargir aðilar tóku til máls og voru margir þingmenn, bæði núverandi og tilvonandi á fundinum. Meðal þeirra sem tóku til máls voru:Árni Ragnar Árnason, Kristján Pálsson, Lúðvík Bergvinsson, Drífa Sigfúsdóttir og Jón Gunnarsson, en frummælendur voru þeir Kristján Gunnarsson, Ketill Jósepsson og Gunnar Bragi Guðmundsson. Ólafur segir að niðurstaða fundarins sé sú að vinna þurfi út frá hagsmunum svæðisins í heild sinni: „Það kom skýrt fram á fundinum í gær að menn þyrftu að vinna saman, hvort sem um sveitarstjórnarmenn, alþingismenn, atvinnurekendur eða íbúa svæðisins er að ræða og setja hagsmuni svæðisins í fyrsta sæti.“

Eins og áður segir mættu fjölmargir á fundinn en Ólafur segir að enginn úr meirihluta bæjarstjórnar Sandgerðis hafi mætt: „Við auglýstum fundinn mjög vel og allir úr bæjarstjórninni fengu fundarboð en enginn úr meirihlutanum lét sjá sig. Það er dálítið skrýtið að meirihlutinn hafi ekki séð ástæðu til að mæta á fundinn til að ræða þetta hitamál og heyra skoðanir íbúa, því fundurinn var settur upp á mjög málefnalegan hátt. Hinsvegar kemur mér það ekki á óvart miðað við þann anda sem verið hefur í garð okkar á Sandgerðislistanum frá meirihlutanum.“

Aðspurður um hvernig Ólafi lítist á að Sandgerði sameinist Reykjanesbæ sagði hann: „Ég er ekki reiðubúinn að svara því já eða nei núna en ég er hinsvegar reiðubúinn að skoða það mál með opnum huga. Mér finnst að það séu ákaflega mörg atriði sem við eigum sameiginleg hér á svæðinu og getum unnið saman að. Við verðum að meta það hvort við séum tilbúin að vera í einu stóru sveitarfélagi eða standa sér á báti. Ég er opinn fyrir því að skoða þessa hluti.“

Ljósmynd: Frá smábátahöfninni í Sandgerði
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024