Borða fisk á aðfangadagskvöld
- Í Póllandi tíðkast að bjóða upp á tólf rétti á aðfangadagskvöld og eiga þeir að tákna gæfu alla tólf mánuðina á nýja árinu
Það er jólaös í Pólsku búðinni Mini Market í miðbæ Reykjanesbæjar eins og víðast hvar í verslunum þessa dagana. Þar versla Pólverjar í jólamatinn sem er nokkuð frábrugðinn þeim hefðbundna íslenska. Á veisluborðinu á aðfangadag í Póllandi tíðkast að bjóða upp á tólf rétti og á það að tákna velsæld alla mánuðina á nýja árinu. Ekki er kjöt í neinum réttanna. Að sögn Agnesar Agnieszku hjá Pólsku búðinni er aðalrétturinn yfirleitt fiskréttur sem kallaður er „carb.“ Meðal annarra rétta á aðfangadagskvöld eru síld, rauðrófusúpa eða sveppasúpa með ravioli, hálfmánar með káli og sveppum og birkikaka. Undir dúkinn á veisluborðinu er sett hey til að minnast þess að Jesús hafi verið lagður í jötu eftir fæðingu. „Ofan á dúkinn á miðju borði setjum við alltaf brauð eða oblátu og deilum henni áður en við óskum hvert öðru gleðilegra jóla og gleðilegs árs og byrjum að borða,“ segir Agnes.
Við pólskt jólaveisluborð er alltaf eitt autt sæti, svona til öryggis ef óvæntur gestur skyldi kíkja við. Einnig tíðkast að fólk bjóði til sín þeim sem ekki eiga fjölskyldu til að verja aðfangadagskvöldi með. Eftir jólamáltíðina eru jólalög sungin saman og sælgætismolar eru hengdir á jólatréð og börnin fá leyfi til að næla sér í nokkra.