Bónus opnar í gamla Félagsbíói
-Verslunin mun opna með haustinu
Bónus mun opna nýja verslun í húsnæði því sem áður hýsti Félagsbíó í gamla miðbæ Keflavíkur. Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónus, staðfesti það í samtali við Víkurfréttir.
Sá orðrómur er búinn að vera þrálátur í allt vor og sumar að Bónus sé á leiðinni í gamla Félagsbíó og nú hefur Guðmundur loksins tekið af allan vafa þess efnis. „Já ég get staðfest það að Bónus mun opna nýja búð í miðbæ Reykjanesbæjar. Þessi nýja búð verður frekar lítil en hún mun verða með allt það helsta sem við bjóðum uppá fyrir okkar viðskiptavini. Við teljum þessa staðsetningu, gamla Félagsbíó, vera ákjósanlega fyrir búð af þessari stærð. Að sjálfsögðu verður sama góða Bónusverðið í nýju búðinni og öllum öðrum búðum okkar,“ sagði Guðmundur.
Guðmundur tók það fram að Bónusverslunin á Fitjum verði rekin áfram með óbreyttu sniði meðfram nýju búðinni. Ekki er ennþá ljóst, að sögn Guðmundar, hvenær verslunin muni opna en stefnt er að því að hún opni núna með haustinu.
Ljóst er að margir muni fagna því að sjá líf í gamla Félagsbíói sem staðið hefur tómt núna í nokkuð mörg ár.
Eins og sést þá eru framkvæmdir við gamla Félagsbíó í fullum gangi, gámur kominn fyrir utan húsið og stefnt er að opnun í haust.
Óli Júl málari var önnum kafinn við málningarvinnu ásamt starfsmönnum sínum þegar blaðamann Víkurfrétta bar að garði.