BÓNUS Í FÉLAGSBÍÓ?
Mikill áhugi virðist vera á húseign Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur, Félagsbíói sem félagið auglýsti nýverið til sölu. Heyrst hefur að sterkir aðilar í verslun hafi sýnt húsinu áhuga og má þar nefna Baug hf. sem m.a. rekur verslanir Bónus og Hagkaups.Kristján Gunnarsson formaður VSFK varðist allra frétta þegar Víkurfréttir höfðu samband við hann vegna málsins í gærdag en samkvæmt öruggum heimildum blaðsins er verið að skoða tilboð Baugs hf. Kaupverð er áætlað um 20 milljónir króna en kostnaður við breytingar á húsinu mun ekki vera undir 50 milljónum króna.„Það hefur í raun komið á óvart hversu mikill áhugi er sýndur á eigninni og útilokum við ekkert. Við vonum að húsið verði einhvernveginn nýtt í þágu almennings en á hvaða hátt ráðum við ekki”. Að sögn Kristjáns var ákvörðun tekin um að selja Félagsbíó og félagsheimilið Sæborgu í Garðinum vegna mikilla breytinga í kvikmynda- og samkomuhúsarekstri. Þó nokkur áhugi hefur verið sýndur á Sæborgu og sagði Kristján m.a. að ævintýramenn hafi sýnt áhuga á að opna þar krá.