Bónus færir Björginni rausnarlega peningagjöf
Jóhannes Jónsson í Bónus færði í gær Björginni, athvarfi fyrir fólk með geðraskanir, rausnarlega peningagjöf upp á 500 þúsund krónur í tilefni af nýloknum breytingum og endurbótum á verslun Bónus á Fitjum, þar sem afhending gjafarinnar fór fram.
Ragnheiður Sif Gunnarsdóttir, forstöðukona Bjargarinnar veitti gjöfinni viðtöku og sagði hana koma sér vel til frekari uppbyggingar í Björginni.
“Samfélagslegur stuðningur eins og sá sem Bónus er að veita okkur nú er mjög mikilvægur fyrir starfsemina, hann hefur ekki bara fjárhagslegt gildi heldur vinnur slíkur stuðningur á fordómum sem eru því miður miklir í samfélaginu,” sagði Ragnheiður.
Stuðning eins og þessi gerir Björginni ennfremur kleift að þróa ný úrræði og verkefni. Þessa dagana er einmitt verið að vinna að athyglisverðu verkefni sem ber yfirskriftina Geðveik hönnun og er í samstarfi við Henson og SPKEF. Verkefnið felst í því að hanna boli fyrir Ljósanótt og félagar í Björginni sjá um hönnun og úrvinnslu. Markmiðið er að vinna gegn fordómum, stuðla að endurhæfingu og virkja og nýta mannauð í samfélaginu. Ef vel tekst til verður verkefnið þróað enn frekar.
“Starfsendurhæfing er mikilvæg í veikindum og hjálpar fólki að vera hluti af samfélaginu þrátt fyrir skerta getu. Með því að virkja ónýttan mannauð er hægt að spara samfélaginu mikla peninga.
Samfélagslegur stuðningur eins og þessi sem Bónus er að veita okkur spilar stórt hlutverk í því að slík verkefni eins og Geðveik hönnun geti orðið að veruleika,” sagði Ragnheiður.
Mynd: Jóhannes Jónsson afhendi Björginni 500 þúsund króna peningagjöf frá Bónus í gærmorgun. Ragnheiður Sif Gunnarsdóttir, forstöðukona Bjargarinnar, veitti gjöfinni viðtöku.
VF-mynd: elg