Bólusetningar gegn inflúensu hófust í gær
Bólusetningar gegn inflúensu á HSS hófust í gær en afgreiðsla tekur nú á móti tímabókunum, sem eru í síma 422-0500, alla virka daga milli kl. 9 og 16. Of snemmt er að segja til um hvort inflúensufaraldur sé hafinn samkvæmt heimasíðu Landlæknis, en nokkur tilfelli hafi nú þegar greinst á Landspítala.
Inflúensa getur verið hættulegur sjúkdómur, sérstaklega hjá fólki með undirliggjandi sjúkdóma og hefur sóttvarnarlæknir hvatt þá sem eru í áhættuhópi að láta bólusetja sig.
Þeir áhættuhópar sem njóta forgangs við inflúensubólusetningar eru allir einstaklingar 60 ára og eldri, öll börn og fullorðnir sem þjást af langvinnum hjarta-, lungna- nýrna- og lifrarsjúkdómum, sykursýki, illkynja sjúkdómum eða öðrum ónæmisbælandi sjúkdómum, heilbrigðisstarfsmenn sem annast einstaklinga í áhættuhópum sem taldir eru upp hér að ofan og einnig þungaðar konur. Þessir hópar fá bólusetningu sér að kostnaðarlausu en borga aðeins komugjald.