Bólusetning barna á Suðurnesjum er hafin
Bólusetning barna á Suðurnesjum hófst í morgun og fer fram í húsnæði Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og Hljómahöllinni. Tæplega fimmhundruð börn á aldrinum 6 til 11 ára voru bólusett í morgun og var von á svipuðum fjölda eftir hádegi.
„Þetta hefur gengið nokkuð vel eða svona eins og við bjuggumst við. Foreldrar hafa komið með börnum sínum. Þegar þau eru búin að fá bólusetningu er þeim boðinn svaladrykkur og horfa á teiknimynd á stórum skjá í Stapa. Húsnæðið hentar alveg frábærlega í þetta. Við erum hér með nokkra hjúkrunarfræðinga og svo taka litskrúðugar persónur í búningum við þeim í anddyrinu,“ segir Andrea Klara Hauksdóttir, hjúkrunardeildarstjóri heilsugæslu.
Nokkuð stór hópur barna er meðal þeirra sem hafa smitast síðustu vikurnar en um eitt hundrað manns hafa greinst með Covid 19 á Suðurnesjum á hverjum degi að undanförnu.
Kolfinnur og Hrafntinna Björk, nemendur í Myllubakkaskóla í Reykjanesbæ voru mjög dugleg í bólusetningunni.