Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Boltaþorskur úr Faxaflóa
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
föstudaginn 1. apríl 2022 kl. 07:10

Boltaþorskur úr Faxaflóa

„Nú er gaman,“ segir Hallgrímur Sigurðsson, skipstjóri á Halldóri Afa GK 222. Netabátarnir sækja stóran þorsk rétt utan landssteinanna í Keflavík.

„Nú er gaman. Við höfum verið að koma með fullan bát af boltaþorski dag eftir dag,“ segir Hallgrímur Sigurðsson, skip- stjóri á Halldóri Afa GK þegar Víkurfréttir hittu á hann við löndun úr fullum bát í Keflavíkurhöfn á þriðjudag. 

„Það er kjaftfullt af boltaþorski hérna í Faxaflóanum, bara hérna rétt úti við Vatnsnes. Við höfum verið að leggja net að morgni og komið daginn eftir og fyllt bátinn. Ég hef ekki skýringar á því en það er alla vega mikið af stórum þorski hérna í flóanum. Við höfum oftast verið að landa einu sinni á dag en nokkrum sinnum höfum við landað tvisvar sama daginn. Þetta er alveg magnað. Þetta hefur ekki verið svona undanfarin ár en er alla vega núna,“ sagði Hallgrímur en hann á ekki langt að sækja fiskigenin og var sjálfur með fiskbúð í Keflavík fyrir allnokkrum árum síðan. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Allur fiskurinn af Halldóri Afa GK fer í útgerð Hólmgríms Sigvaldasonar, HSS Fisk- verkun. Hann var á kajanum á flutningabíl þegar verið var að landa og keyrði full kör af fallegum þorski í verkunina skammt frá. Hann var ánægður með aflann og sagði að það væri mikil eftirspurn. Þessi þorskur færi allur í salt og eftirspurnin væri það mikil að hann gæti selt hann mörgum sinnum. „Það er nóg af kaupendum,“ sagði Hólmgrímur en starfsemi hans hefur vaxið mikið á undan- förnum árum. 

Hallgrímur skipstjóri sagði að netin væru með mjög stórum riðli eða 10,5 tommum og því væri aflinn eingöngu boltaþorskur. Tíðindamaður Víkurfrétta hitti stórfrænda hans, Guðmund Rúnar Hallgrímsson, fyrr-verandi skipsstjóra á aflafleyinu Happasæl og spurði hann hvort hann vissi ástæðuna fyrir þessu stóra fiski í Faxaflóa, skammt frá landi.

„Ég held að ein ástæðan hljóti að vera sú að það er mikið æti hérna nálægt landinu. Þegar við vildum á sínum tíma ná í minni þorsk sem hentaði betur í saltfiskinn fórum við lengra út,“ sagði Guðmundur Rúnar en hann er föðurbróðir Hallgríms skipstjóra. Í aflafréttum, vikulegum sjávarútvegspistli í Víkurfréttum, er sagt frá metafla í marsmánuði. Fleiri bátar en Halldór Afi GK hafa verið að veiðum í stórþorsk-inum, m.a. Bergvík GK sem hafði í upphafi vikunnar landað 58 tonnum í átján róðrum í mánuðinum. Nánar um það og fleiri tíðindi af sjónum í Aflafréttum á síðu 6 í blaðinu.