Bólginn og marinn en nálgast endamarkið
– Sigvaldi Arnar Lárusson klárar Umhyggjugönguna á laugardaginn
Sigvaldi Arnar Lárusson, gangandi lögreglumaðurinn frá Keflavík, er núna staddur á Blönduósi þar sem hann mun gista í nótt. Sigvaldi er þó kominn lengra á göngu sinni en hann gekk við Þverárfjall í dag um 25 km. leið áleiðis á Sauðárkrók. Ferðin á Sauðárkrók verður kláruð á morgun. Þaðan verður svo lagt upp í lokalegg göngunnar á Hofsós á laugardag.
Sigvaldi þurfti að hvíla sig á göngunni í gær samkvæmt læknisráði en hann er með bólgna ökkla og myndarlegar blöðrur.
„Þetta var góð hvíld í gær en ég er allur marinn og bólginn,“ sagði Sigvaldi í samtali við Víkurfréttir nú áðan. Hjúkrunarfræðingur er að huga að honum í sumarhúsi á Blönduósi og búa þannig um kappann að hann nái að klára ferðalagið sem lagt var upp í, gangandi frá Keflavík til Hofsóss.
Sigvaldi sagðist taka hatt sinn ofan fyrir öllum sem stunda gönguferðir. Það sé meira en að segja það að leggja í langar göngur. Að mörgu þurfi að huga. T.a.m. skiptir máli hvernig reima skal skó og telur Sigvaldi að hann hafi farið rangt að þegar hann gekk Reykjanesbrautina og sé að súpa seiðið af því núna.
Holtavörðuheiðin var gríðarlega erfið yfirferðar og kostaði 20 verkjatöflur. Það var hvasst á heiðinni en sem betur fer var gönguhópurinn með vindinn í bakið.
Lögreglumenn- og konur frá lögreglunni á Suðurnesjum hafa stutt vel við bakið á Sigvalda og gengið með honum. Góður stuðningshópur fylgdi honum yfir Holtavörðuheiðina og í dag fylgdu fjórir félagar Sigvalda úr lögreglunni á Suðurnesjum honum 25 km. leið við Þverárfjall.
Helstu ferðafélagar Sigvalda undir það síðasta hafa þó verið parkódín og íbúfen, til að slá á bólgur og verki en eins og Sigvaldi segir sjálfur þá eru fætur hans illa farnir af mari og bólgum.
Sigvaldi og félagar voru að grilla lambalæri þegar Víkurfréttir slógu á þráðinn enda nauðsynlegt að borða vel á svona ferðalagi og göngumenn komast ekkert áfram á káli og gúrkum.
Það safnast vel í söfnuninni fyrir Umhyggju og vegfarendur eru vel með á nótunum og hefur Sigvaldi verið að taka á móti peningum út um gluggann hjá vegfarendum. Fólk er einnig duglegt að hringja inn í styrktarsímana og leggja inn á reikning göngunnar í Landsbankanum.
Umhyggjugöngunni 2015 mun svo ljúka á Hofsósi á laugardaginn. Vegna þess að Sigvaldi þurfti að stoppa gönguna í gær vegna meiðsla þá „skuldar“ hann um 30 km. þegar komið verður á Hofsós á laugardag. Skuldin verður greidd þegar söfnunarféð verður afhent við heimkomu. Þá verður safnað í hóp og gengur að nýju frá lögreglustöðinni í Keflavík og til Reykjavíkur þar sem söfnunarféð verður afhent.
Rétt er að minna á að ganga kappans er til styrktar Umhyggju, langveikum börnum og er hægt að hringja inn styrki í eftirtalin númer:
901-5010 - 1.000 kr.
901-5020 - 2.000 kr.
901-5030 - 3.000 kr.
Samfélagið á Bifröst gaf 100.000 kr. í söfnunina.