Boeing 747 fraktvél nauðlenti vegna sprengjuhótunar
Boeing 747 fraktvél lenti á Keflavíkurflugvelli rétt fyrir miðnætti eftir að hótun barst um að sprengja væri í vélinni. Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri staðfesti það í samtali við mbl.is.
Samkvæmt upplýsingum Víkurfrétta kom vélin að flugvellinum úr vestri og lenti á braut 10. Þar var henni að sögn heimildarmanna VF lent fljótt og flugmenn hennar fóru út úr vélinni á neyðarrennu sem þeir settu út.
Lögregla vinnur að málinu og er talsverður viðbúnaður á Keflavíkurflugvelli.
Aðrar flugvélar hafa ekki fengið að lenda á flugvellinum vegna þessa, sumar hafa snúið við og einhverjar hringsóla við landið. Flugvél frá Play sem var að koma til landsins frá Madríd var beint til Aukureyrarflugvallar. Annarri var snúið við til brottfararstaðar. Birgir Olgeirsson, upplýsingafulltrúi Play, staðfesti þetta í samtali við Vísir.is
Samkvæmt heimildum mbl.is var flugvélin á leið frá Köln í Þýskaland til Kentucky-ríkis í Bandaríkjunum þegar að sprengjuhótun barst. Var flugvélinni þá snúið við og lent á Keflavíkurflugvelli.