Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Böðvar Jónsson: Minnihlutinn hefur lagst gegn flestum góðum málum
Fimmtudagur 20. nóvember 2008 kl. 12:36

Böðvar Jónsson: Minnihlutinn hefur lagst gegn flestum góðum málum



Minnihluti A – listans í bæjarstjórn Reykjanesbæjar gagnrýnir harðlega ákvörðun meirihluta Sjálfstæðismanna að ráðast í kaup á einum þriðja hluta Rammahússins fyrir 75 milljónir króna á „sama tíma og sveitarfélagið eigi ekki fyrir útgjöldum sínum,“ eins og segir í bókun sem minnihlutinn lagði fram á bæjarstjórnarfundi í gær.
Böðvar Jónsson, formaður bæjarráðs, segir minnihlutann hafa lagst gegn flestum góðum málum í sveitarfélaginu um langt skeið.

Staðfestir forgangsröðun meirihlutans

„Vegna þeirra ákvörðunar sjálfstæðismanna að festa kaup á hluta húss við Seylubraut 1 í Njarðvík tæpar 75 milljónir, viljum við ítreka andstöðu okkar við þá ákvörðun. Það hlýtur að vekja furðu að sjálfstæðismenn ráðast í þessi kaup á sama tíma og fyrirséð er að sveitarfélagið á ekki fyrir útgjöldum sínum. Þetta húsnæði er heldur ekki að finna á lista yfir víkjandi húsnæði hér í bænum og því alls engin nauðsyn að ráðast í þessi kaup.
En þetta staðfestir enn og aftur þá forgangsröðun gildir við stjórn sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ,“ segir í bókun A-listans.

Samdráttur á ekki að bitna á grunnþjónustunni

Þá kom fram hörð gagnrýni í orðræðu á fundinum þar sem Sveindís Valdimarsdóttir sagði þessa ákvörðun meirihlutans alveg með ólíkindum. Hún sagði Sjálfstæðismenn ætla halda áfram að kaupa eignir jafnvel þótt ekki væri vitað í hvað ætti að nota þær. Á sama tíma blasti við niðurskurður í velferðarmálum vegna efnahagsástandins.

VF bar þessa gagnrýni undir Böðvar Jónsson:

„Meirihlutinn hefur lýst því yfir að ekki standi til að skera niður í grunnþjónustu sveitarfélagsins. Hins vegar er ljóst að draga þarf saman á ýmsum sviðum í samfélaginu, bæði hjá sveitarfélagi og Ríki en sá samdráttur á ekki að bitna á grunnþjónustunni.“ segir Böðvar í svari sínu.

Yfirbyggður leikjagarður?

Hann segir að eftir brottför Varnarliðisins hafi Reykjanesbæ stór og mikil barnaleiktæki sem áður voru í notkun á Vallarheiði en hafa síðan verið í geymslu vegna aðstöðuleysis.

„Hugmyndir hafa verið uppi um yfirbyggðan leikjagarð fyrir börn þar sem mögulegt
væri að koma í öllum veðrum og leyfa börnunum að njóta. Hugsanlega verður unnt að skapa þá aðstöðu núna í þessu húsi. Nú er mikilvægt að skapa sem fjölbreyttasta aðstöðu fyrir börnin og fjölskylduna, sérstaklega þegar það er fært án þess að fara út í sérstakan kostnað heldur að nýta það sem til er. Kaup á Rammahúsinu hafa oft komið til umræðu hjá bæjaryfirvöldum en aldrei verið farið út í það vegna þess að fasteignaverð hefur verið mjög hátt síðustu ár en hefur lækkað umtalsvert á síðustu vikum og mánuðum,“ segir Böðvar.


Gagnrýna og mótmæla án þess að vinna að framförum


Varðandi gagnrýni Sveindísar og minnihlutans segir Böðvar ennfremur:

„Það er rétt að Sveindís Valdimarsdóttir gagnrýndi þetta mál í gær um leið og hún vildi stýra umræðunni í bæjarstjórn um hvað væri verið að ræða og hvað ekki. Minnihlutinn hefur lagst gegn flestum góðum málum í sveitarfélaginu um langt skeið en gerir ekkert í því að koma fram með góðar eða uppbyggilegar hugmyndir. Það eru einfaldlega þeirra vinnubrögð og viðhorf um hvernig á að standa að stjórnun bæjarfélagsins. Þau gagnrýna og mótmæla í stað þess að vinna að framförum og bótum. Það eru þeirra vinnubrögð en ekki meirihlutans“.

VFmynd/elg: Frá bæjarstjórnarfundi í Reykjanesbæ. Böðvar Jónsson í pontu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Tengdar fréttir:

Gagnrýna harðlega kaup bæjarins á Rammahúsinu

Uppsöfnuð fasteignagjöld upp á 15 milljónir