Boðið gull og grænir skógar fyrir 7000 dollara tryggingu af kreditkorti
„Auðvitað leið ekki á löngu þar til annar ungur Indverji hafði stoppað okkur og byrjað spyrja okkur út í Ísland og Evrópu. Loks bauð hann okkur í Chai og við förum með honum til einhvers vinar hans. Hann blandaði teið fyrir framan nefið á okkur og þannig að við töldum að allt ætti þetta að vera nokkuð öruggt. Þegar við höfðum tæmt úr fyrsta bollanum breyttist umræðuefnið skyndilega og áður en við vissum af voru þeir byrjaðir að bjóða okkur gull og græna skóga ef við tækjum hjá þeim skartgripi, færum með þá til Íslands og leyfðum þeim í staðinn að taka 7000 dollara tryggingu út af kreditkortunum okkar“. Þetta kemur meðal annars fram í nýjasta heimsreisupistli þeirra Hemma og Magga sem kominn er inn á heimsreisuvefinn þeirra hér á vf.isÁfram halda þeir: „Um leið og þessi orð féllu stóðum við upp, þökkuðum fyrir okkur og hálfpartinn hlupum út á aðalgötuna til þess að finna okkur taxa upp á hótel. Eitthvað reyndu þeir að stoppa okkur af en við þóttumst ekki heyra í þeim. Þegar við vorum við komnir upp á hótel fór okkur að líða mjög einkennilega. Þreyta og máttleysi var farin að gera vart um sig. 24 tímum síðar höfðum við loksins safnað upp nægum kröftum til þess að skrönglast fram úr rúminu og það er greinilegt að þeir settu eitthvað meira en kanil í teið. Indverjar stóðust ekki traustprófið í þetta skiptið en við erum samt handvissir um að flestir þeirra eru heiðarlegir en sennilega eru það þó bara þeir sem tala aldrei við mann. Eitt erum við þó alveg vissir um og það er að við munum aldrei þiggja te hjá neinum þeirra aftur. Það er bara ekki áhættunnar virði.“
Lesa allan pistilinn
Lesa allan pistilinn