Boðar veitingamenn á fund eftir hópslagsmál við Hafnargötu
Lögreglan á Suðurnesjum ætlar að boða veitingamenn við Hafnargötu í Keflavík til fundar til að ræða eldfimt ástand sem skapaðist um síðustu helgi þegar fylkingar manna slógust við götuna. Þrír voru með áverka eftir slagsmálin og einn fékk að gista fangageymslur í Keflavík.
Það var rétt fyrir kl. 05 aðfaranótt sl. sunnudags sem fjölmennt lögreglulið var kallað í miðbæ Keflavíkur þar sem slagsmál voru yfirstandandi og mikill hiti í fólki. Að sögn lögreglu var erfitt að átta sig á ástandinu. Þarna áttu sér stað svokölluð hópslagsmál.
Þegar lögreglan kom á staðinn voru tveir menn liggjandi blóðugir í götunni og hiti í fólki. Sjúkrabílar voru því kallaðir á vettvang. Þá þurftu lögreglumenn að hóta beitingu á kylfum og gasi til að fá vinnufrið á vettvangi. Einn einstaklingur var mjög æstur og truflaði lögregluna ítrekað. Ekkert var hægt að ræða við þann einstakling og var hann færður í fangageymslur að sögn lögreglu.
Lögreglan segir í samtali við Víkurfréttir að mikil ölvun hafi verið á svæðinu og ringulreið. Flöskum hafi verið beitt og hlutu þrír einstaklingar áverka vegna þess.
Svo virðist vera að það hafi verið hópar Íslendinga og Pólverja sem slógust. Ástæður þess að uppúr sauð liggja ekki fyrir en það skýrist vonandi eftir að lögreglan hefur átt fund með veitingamönnum og dyravörðum veitingahúsanna á svæðinu. Fyrst verður rætt við veitingamanninn og dyraverðina á Manhattan við Hafnargötu en síðan stendur til að boða aðra veitingamenn einnig til fundar.