Boða hvatagreiðslur til eldra fólks
Ekki frekari stuðningur við fjölþætta heilsueflingu 65+
Bæjarráð Reykjanesbæjar hefur hafnað erindi um tímabundna framlengingu samstarfssamnings um fjölþætta heilsuefling 65+. Við sama tækifæri bókaði bæjarráð þakkir til Janusar. „Við viljum þakka Janusi Heilsueflingu sérstaklega fyrir samstarfið á liðnum árum. Samstarfið hefur verið með miklum ágætum allt frá árinu 2017. Verkefnið hefur svo sannarlega verið frumkvöðlastarf í heilsueflingu fyrir elstu íbúa sveitarfélagsins.
Ákveðið hefur verið að taka upp hvatagreiðslur fyrir eldra fólk frá janúar 2024. Þá getur hver og einn valið sína heilsueflingu á eigin forsendum, t.d. sund, golf, líkamsrækt, Janus Heilsueflingu o.fl. Hvatagreiðslur eru ætlaðar til lækkunar á námskeiðsgjöldum. Á þennan hátt ríkir jafnræði á meðal eldra fólks í Reykjanesbæ og þeirra sem munu bjóða upp á sértæka heilsueflingu fyrir þann hóp. Það er von okkar að með þessu móti muni fleiri úr hópi eldra fólks sækja sér heilsueflingu.
Það er von okkar að Janus Heilsuefling verði áfram valkostur í heilsueflingu eldra fólks í Reykjanesbæ,“ segir í bókuninni sem Friðjón Einarsson (S), Guðbergur Reynisson (D), Guðný Birna Guðmundsdóttir (S), Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir (B) og Valgerður Björk Pálsdóttir (Y) skrifa undir.