Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Blue leigir lögreglunni fyrsta útkallsbíllinn sem knúinn er rafmagni
Meðfylgjandi mynd var tekin við afhendingu lögreglubílsins en á henni eru Sævar Sævarsson, aðstoðar framkvæmdastjóri Blue Car Rental, og Jóhannes Ólafsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum.
Fimmtudagur 6. október 2022 kl. 14:43

Blue leigir lögreglunni fyrsta útkallsbíllinn sem knúinn er rafmagni

Nýlega gerðu Blue Car Rental ehf. og Lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum langtímaleigusamning um fyrsta 100% rafbílinn á Íslandi sem notaður verður sem útkallsbíll, skráður til neyðaraksturs, merktur og með tilheyrandi búnaði. Um tilraunaverkefni af hálfu Lögreglustjórans í Vestmannaeyjum er að ræða en umræddur rafbíll er af gerðinni Mercedes-Benz EQB 300, 4MATIC, Pure árgerð 2022. Víst þykir að önnur lögregluembætti líta verkefnið hýru auga enda er ljóst að markmið ríkisstofnanna er að auka hlut bifreiða sem ganga fyrir umhverfisvænni orkugjöfum en jarðefnaeldsneyti. 

Grímur Hergeirsson, lögreglustjóri í Vestmannaeyjum, kveðst ánægður með að vera kominn með bílinn í hendurnar. „Við hjá lögreglustjóranum í Vestmannaeyjum höfum líkt og aðrar ríkisstofnanir verið að vinna í Grænu skrefunum og tókum nú ákvörðun um að skipta öðrum af tveimur útkallsbílum okkar alfarið yfir í rafmagn. Við teljum að hér í Eyjum séu kjör aðstæður fyrir rafmagnsbíla og bindum vonir við að nýi bíllinn muni reynast vel.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Sævar Sævarsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Blue Car Rental, segir að mikil ánægja sé innan herbúða fyrirtækisins að hafa verið valin til að taka þátt í þessu tilraunaverkefni. „Undanfarin ár höfum við verið að auka hlutfall nýorkubíla í flota Blue Car Rental jafnt og þétt sem einn af liðum í umhverfisstefnu fyrirtækisins. Fyrirtækið hefur skuldbundið sig til að aðlaga starfshætti og rekstur að ábyrgri afstöðu til umhverfismála. Til marks um það undirritaði Blue Car Rental samning við Kolvið í nóvember 2019 en samkvæmt honum geta viðskiptavinir, hvort sem um skammtíma- eða langtímaleigu er að ræða, valið að kolefnisjafna akstur sinn á bílum leigðum hjá fyrirtækinu. Þá hefur Blue Car Rental hlotið umhverfis- og gæðavottun Vakans auk þess sem unnið er hægt og bítandi í átt að umhverfisvænni leiðum þar sem hægt er.“